Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 16:45:59 (354)

2002-10-08 16:45:59# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[16:45]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Það er rétt sem haldið hefur verið fram að fjárhagsvandi steðjar að Landspítala -- háskólasjúkrahúsi. Það eru ekki ný tíðindi og er sama hvaða flokkur er við heilbrigðismálin og stjórnar þar, sá vandi hefur ætíð verið uppi. Stóru sjúkrahúsin í Reykjavík hafa ætíð verið í fjárhagsvanda þegar nálgast árslok og ástæðuna má að verulegu leyti rekja til þess að Landspítalinn er nú sem fyrr endastöð í heilbrigðisþjónustunni eins og margsinnis hefur verið bent á.

Virðulegi forseti. Til þess að varpa ljósi á fjármál heilbrigðisþjónustunnar er rétt að taka það fram að hjá stórri stofnun eins og Landspítalanum vega laun og launatengd gjöld um 68% af heildarútgjöldum spítalans. Þetta þýðir, eins og hæstv. heilbrrh. hefur bent á, að allar launabreytingar sem verða hafa gríðarlega mikil áhrif á rekstrarstöðu spítalans. Hvert prósent sem Landspítalinn fer umfram eigin áætlanir svarar til útgjalda að 160 milljónum á ári, hvert einasta prósent á þeim rekstrarþætti.

Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni skal tekið fram að heildarframlögin til spítalanna beggja voru 13 milljarðar árið 1997, 16 milljarðar 1998, 18 milljarðar 1999 og 20 milljarðar árið 2001, og framlögin verða sjálfsagt um 22 milljarðar á árinu í ár. Fjárframlögin hafa þannig aukist um u.þ.b. 64% á fimm árum eða sem svarar til rúmlega 10% á hverju einasta ári, eins og bent hefur verið á í umræðum um heilbrigðismál að undanförnu. Virðulegi forseti. Þetta kalla ég ekki að svelta spítalana, eins og sumir hv. þm. hafa haldið fram á opinberum vettvangi undanfarið og hv. 7. þm. Reykv. hefur haldið slíku fram mjög stíft undanfarið.

Ef við snúum okkur að heildarfjárveitingum til heilbrigðisþjónustunnar, þá er rétt að taka fram að framlögin hafa verið aukin um 17 milljarða kr. á því fimm ára tímabili sem hv. þingmönnum er mjög tamt að tala um, eða frá árinu 1997. Framlögin hafa aukist um 17 milljarða á verðlagi ársins 2001.

Virðulegi forseti. Aldrei í seinni tíma sögu heilbrigðismála hafa framlög til málaflokksins verið aukin jafnmikið á skömmum tíma, aldrei. Þetta eru staðreyndir málsins og mótmæli gegn slíku falla létt því að rök hinna ábyrgu talna sem ég hef lagt hér fram tala skýru máli.