Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 16:59:18 (358)

2002-10-08 16:59:18# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), DrH
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[16:59]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Heilbrigðisþjónusta á Íslandi er að mestu leyti fjármögnuð af almennum skatttekjum ríkisins og þjónustan er að stærstum hluta í höndum stofnana þess. Mitt álit er að nauðsynlegt sé að skoða kerfið allt í heild sinni, hvað hver á að gera, hvaða verkefni hver á að sinna og hvernig farið er með fjármagn.

Herra forseti. Í heilbrigðisáætlun hefur það markmið verið sett að yfir 75% fólks 80 ára og eldra verði við svo góða heilsu að það geti með viðeigandi stuðningi búið á eigin heimilum utan stofnana. Aldraðir kjósa allra helst að vera heima hjá sér eins lengi og kostur er með þeirri aðstoð sem þarf til að svo megi vera. Flestum líður best heima hjá sér og því miður vill heilsunni oft hraka þegar inn á stofnun er komið. Það þarf að færa þjónustuna í vaxandi mæli inn á heimili fólks. Það sem er í veginum er m.a. að heimaþjónustan er á vegum sveitarfélaga og heimahjúkrunin á vegum ríkisins.

Ég vil nefna tvö sveitarfélög, Akureyri og Hornafjörð, sem eru reynslusveitarfélög á sviði heilbrigðisþjónustu. Þessi sveitarfélög reka félagsþjónustuna og heilsugæsluna í einni einingu. Heilsueflandi heimsóknir til aldraðra eru tilraunaverkefni á Akureyri og þar hefur árangurinn ekki látið á sér standa. Þjónusta inn á heimili fólks hefur aukist verulega og þar hefur hlutfalli aldraðra á stofnunum fækkað úr 40% í 30% og fjölgun þeirra sem hafa fengið heimaþjónustu og heimahjúkrun verið á milli 56 og 64%. Við eigum að horfa til þessarar jákvæðu þróunar. Herra forseti. Við eigum að gera öldruðum kleift að vera heima hjá sér með þá aðstoð sem til þarf.

Herra forseti. Hér hefur margt verið rætt um heilbrigðisþjónustuna á Íslandi í dag. Að mínu áliti búum við við afbragðsgóða heilbrigðisþjónustu sem er með þeirri bestu í heiminum í dag.