Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 17:04:35 (360)

2002-10-08 17:04:35# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[17:04]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Þegar skýrslur Ríkisendurskoðunar voru birtar fyrir nokkru var hv. málshefjandi, Margrét Frímannsdóttir, alla þá helgi í að viðra hneykslun sína á niðurstöðum skýrslunnar, sérstaklega hvað varðar sérfræðilæknana. Hún sagði: Þetta er alveg galið kerfi. Þetta er alveg galið kerfi sem við búum við varðandi sérfræðilæknana.

Ég hlustaði því með mikilli athygli á málflutning hv. þm. þegar hún reifaði mál sitt og gerði stöðu heilsugæslunnar að aðalumfjöllunarefni og ýtrustu kröfur hluta heilsugæslulækna. Hver voru úrræði hv. þm. sem áttu að leysa málið að hennar mati? Það var að gera gjaldskrársamninga við sérfræðinga í heilsugæslunni. Með öðrum orðum, að taka upp það kerfi sem hv. þm. úthrópaði heila helgi sem alveg galið kerfi. Þetta voru tillögur hv. málshefjanda, Margrétar Frímannsdóttur.

Það voru fleiri en ég sem ekki voru mjög hrifnir af þessum tillögum. Ég man ekki betur en að formaður Samfylkingarinnar hafi á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar fyrir skömmu líkt þessu kerfi við opinn krana, að sérfræðingar hefðu opinn krana í ríkissjóð. Það sem varaformaður Samfylkingarinnar leggur nú til að tekið verði upp er að hleypa heimilislæknum í þennan opna krana. Ég hlýt að spyrja, herra forseti: Hver er stefna Samfylkingarinnar í þessu máli? Er hún galin eða er hún ekki galin? Nú vill svo til að varaformaður Samfylkingarinnar kemur hér í ræðustól á eftir og getur útskýrt þetta fyrir okkur.

Í öðru lagi sagði hv. málshefjandi að það vantaði 4--5 milljarða inn í heilbrigðiskerfið. Ég get verið nokkuð sammála þingmanninum um að það vanti peninga inn í kerfið. Það er allt í lagi að setja meiri peninga inn í kerfið vegna þess að það er ódýrt eins og ég hef sýnt fram á með rökum úr þessum ræðustól fyrr í umræðum um þessi mál.

En hvað segir formaður þingflokks Samfylkingarinnar um þetta sjónarmið á vefsíðu sinni fyrir nokkru? Hann segir að það leysi því miður ekki vandann að auka útgjöldin til heilbrigðismála. Hver er stefna Samfylkingarinnar í þessu máli? Er stefna Samfylkingarinnar sú að ekki eigi að auka fjármagn til heilbrigðismála eða telur hún vanta fjármagn til heilbrigðismála? Ég held því að fara verði fram á það að þessi stefna verði skýrð.

Ég vil að lokum, herra forseti, rifja upp að Samfylkingin í Hafnarfirði vann sinn stærsta kosningasigur í bæjarstjórnarkosningunum með því að vera á móti einkavæðingu í menntakerfinu. Hún notaði fyrsta tækifæri til að kippa þeirri stofnun aftur inn undir verndarvæng bæjarfélagsins, þ.e. Áslandsskóla. Nú talar þingmaður Samfylkingarinnar, Guðmundur Árni Stefánsson, og varaformaður Samfylkingarinnar, Margrét Frímannsdóttir, fyrir einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Skyldi það vera í takt við sjónarmið kjósenda í Hafnarfirði að þessar áherslur eru teknar upp um þessar mundir, herra forseti?