Staða heilbrigðismála

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 17:07:56 (361)

2002-10-08 17:07:56# 128. lþ. 6.95 fundur 157#B staða heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), Flm. MF
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[17:07]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það eru lágmarkskröfur á hv. þingmenn að þeir fari með rétt mál en ekki eintómt þvaður.

Þannig er að í ræðu minni sagði ég --- af því að ég hef þetta nú hérna, ég var með heimastíl --- hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson:

,,Ef ekki er farið að lögum um tvískiptingu heilbrigðiskerfisins í frumþjónustu og annarri sérþjónustu eru engar forsendur til staðar til að neita því að heimilislæknar fái að gera gjaldskrársamninga á sama grundvelli og aðrir sérfræðingar. Þá þurfa að koma til gagngerar breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Er það vilji ráðherra? Það er nauðsynlegt að fá svör við þeirri spurningu.``

Þetta var það sem ég sagði, hv. þm. Þegar þingmenn, ég tala nú ekki um hv. þingflokksformenn, vitna í ræðumenn þá skulu þeir hafa rétt eftir (Gripið fram í.) og forðast útúrsnúninga.

Það er alveg merkilegt að hlusta á þessa umræðu þar sem ekki hefur komið svar við einni einustu spurningu. Staðreyndin er sú að niðurstaða Ríkisendurskoðunar er sú að ekki sé farið að lögum, að í raun sé ekki farið að lögum vegna þess að valfrelsið sem var sett hér á geri það að verkum að lög um heilbrigðisþjónustu, þ.e. um þessa tvískiptingu, virki bara ekki lengur.

Hér tala menn um sérfræðinga og heimilislækna. Ég hafði haldið að heimilislæknar væru með færustu sérfræðingum sem við ættum í læknastéttinni. Það ber að tala um þá á nákvæmlega sama máta og aðra sérfræðinga sem starfa innan heilbrigðiskerfisins.

Svörin vantar ekki frá Samfylkingunni. Svörin vantar frá Framsfl. Ég vil fá að heyra hvað hæstv. ráðherra ætlar að gera. Hvernig ætlar hann að bregðast við því að 20 heimilislæknar, sérfræðingar í heimilislækningum, eru að ganga út á næsta einum og hálfum mánuði? Hæstv. ráðherra talar um að þegar hann hafi komið í ráðuneytið hafi ráðuneytið verið eins og skúta sem hafi bara rekið fyrir vindi (Gripið fram í: Fyrirrennari hans.) þegar þeir tóku við.

Ég er yfir mig hissa. Hafi þetta ráðuneyti verið þannig, ef svo hefur verið komið 1995 eða 1991, að sú skúta hljóti þá nánast að vera sokkin með manni og mús því að sáralítið hefur gerst síðan.

Var ekki skipuð nefnd --- af því að hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason, sem nú situr í forsetastól, sagði að ég hefði verið hneyksluð á nefndaskipan --- til að leysa málefni heilsugæslunnar fyrir einu ári? Hvað gerði hún? Dagaði uppi.

Jú, jú, það er sjálfsagt og eðlilegt að heilbr.- og trn. fari yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það á ekki að þurfa að orða það hér. Það sem ég sagði var: Við skulum búa til starfsnefnd sem fer yfir allar þær athuganir sem gerðar hafa verið, ekki bara skýrslu Ríkisendurskoðunar heldur allt saman og skilar hér skýrslu innan tveggja mánaða til þingsins um stöðu mála. Við verðum að skilgreina hlutverk heilbrigðisþjónustunnar.

Vissulega höfum við aukið fjármagnið til heilsugæslu á undanförnum árum, það er alveg hárrétt, en nýtum við það fjármagn eins vel og við getum? Nei. Ég er sannfærð um að ef tvískiptingin virkaði og komið væri fram við heilsugæsluna og heimilislæknana, sérfræðinga okkar í heimilislækningum, á sama hátt og gert er gagnvart öðrum, af sömu virðingu, og þessi hluti heilbrigðisþjónustunnar meðhöndlaður af sömu virðingu þá nýttum við þetta fjármagn betur. Því miður, virðulegi forseti, hef ég ekki tíma til þess að fara aðeins yfir það nánar sem hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason kallaði upphrópanir. Þetta eru staðreyndir.