Aðgerðir til verndar rjúpnastofninum

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 17:47:00 (367)

2002-10-08 17:47:00# 128. lþ. 6.5 fundur 11. mál: #A aðgerðir til verndar rjúpnastofninum# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[17:47]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins koma hér upp og ræða um þá tillögu sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að mæla fyrir um aðgerðir til verndar rjúpnastofninum.

Ég held að það sé allrar athygli vert að skoða það að standa að þessum málum með þeim hætti að veiðitíminn geti verið breytilegur milli ára. Það er alveg hárrétt, eins og komið hefur fram í máli hv. þingmanna, að eins og nú háttar til með tíðarfar þá sést rjúpan auðvitað um langan veg og er auðgreinanleg í þeim hópum sem á flögri eru og jafnvel þeim sem sitja á jörðu. Ég var nú síðast að koma yfir Þorskafjarðarheiði í gær og þar sást ákaflega vel til rjúpna. Það var svo sem ekki mikið af henni en þó sá maður einstaka fugl.

Ég held að það sé alveg rétt að ekki hefur verið mikið að sjá af rjúpu á þessum haustdögum. Vafalaust er hún hátt til fjalla eins og tíð háttar. Eins og tíðin hefur verið í haust, mikil hlýindi og væta, þá held ég að landinu gæti verið illa spillt ef veiðar hæfust um miðjan mánuðinn. Þess vegna tek ég undir þá hugsun sem sett er fram í þáltill., þ.e. að takmarka veiðitímann og eins hitt að æskilegt væri ef hægt væri að meta það eitthvað eftir árferði hvenær veiðitíminn ætti að hefjast og að ekki þyrfti að ákveða með margra mánaða fyrirvara að dagsetningarnar 15. október eða 1. nóvember væru einu dagsetningarnar sem gilt gætu. Rjúpnaveiðimenn geta varla hafa gert svo ströng plön að þeir komist ekki til rjúpna einhvern tímann á því tímabili sem leyft verður þótt dagsetningarnar liggi ekki fyrir með margra mánaða fyrirvara.