Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 18:05:32 (370)

2002-10-08 18:05:32# 128. lþ. 6.6 fundur 5. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (lausir kjarasamningar) frv., Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[18:05]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka undirtektir hv. þm. Ögmundar Jónassonar við málið sem ég kynnti hér og flutti. Eins og ég gat um er frv. þannig hugsað að það breyti ekki réttarstöðu atvinnurekenda fyrr en samningur hefur verið laus í sex mánuði. Eftir sem áður getur samningsgerð dregist í tæpa sex mánuði án þess að nokkur kauphækkun komi sjálfvirkt til launþeganna samkvæmt frumvarpstextanum. En að sex mánuðunum liðnum hins vegar þá telur það strax þrjá mánuði aftur í tímann og síðan einn mánuð fyrir hverja tvo sem samningar dragast. Þannig eiga launþegar eingöngu þennan rétt hafi atvinnurekandinn ekki samið við þá í sex mánuði. Þetta tel ég vera réttarbót og ákveðna málamiðlun en auðvitað má hugsa sér á þessu aðrar útfærslur eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson minntist á. Þetta verður vonandi skoðað gaumgæfilega í nefnd og fær vonandi loksins eðlilega umfjöllun. Ég vona að málið komi aftur fyrir þingið eftir að nefndin hefur farið yfir það.