Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu Landsbankans

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 13:33:24 (373)

2002-10-09 13:33:24# 128. lþ. 7.91 fundur 158#B skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu Landsbankans# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[13:33]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að miklar sviptingar hafa verið í einkavæðingarmálum þjóðarinnar og ríkisstjórnarinnar á síðustu vikum. Við erum minnug þess að trúnaðarmaður fjmrh. sagði af sér í einkavæðingarnefnd með þeim orðum að hann hefði aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum á 11 ára ferli sínum í nefndinni. Trúnaðarmaður fjmrh. fór fram á það að hlutlausum aðila yrði falið að taka út störf nefndarinnar að sölu Landsbankans.

Það verð ég að segja ríkisstjórninni til hróss að hún varð við því og hún fól Ríkisendurskoðun að gera úttekt á söluferli Landsbankans. Okkur í efh.- og viðskn. var tjáð að skýrslunnar væri að vænta í síðustu viku en enn bólar ekki á því að skýrsla Ríkisendurskoðunar komi fram um þetta mál. Það finnst mér ákaflega slæmt, herra forseti.

Þegar Steingrímur Ari Arason setti fram þessa ósk fór ég fram á það fyrir hönd Samfylkingarinnar að söluferlið yrði tafarlaust stöðvað. Á meðan óhraktar væru þessar fullyrðingar Steingríms Ara og alvarlegu ávirðingar á hendur einkavæðingarnefnd væri ljóst að enginn trúnaður væri milli hennar og þjóðarinnar, og meðan sá trúnaðarbrestur ríkti væri ekki hægt að heimila nefndinni að starfa áfram að því að selja Landsbankann.

Nú hefur þessi skýrsla ekki komið fram. Ég veit svo sem ekki hvað veldur töfinni en, herra forseti, ég kvaddi mér hljóðs til þess að spyrja hæstv. viðskrh. hvort hún geti fullvissað þingheim um að Landsbankinn verði ekki seldur fyrr en skýrsla Ríkisendurskoðunar verður komin fram með öllum þeim rannsóknargögnum sem henni fylgja.