Samkeppnislög

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 13:39:32 (377)

2002-10-09 13:39:32# 128. lþ. 7.95 fundur 162#B samkeppnislög# (aths. um störf þingsins), HBl
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[13:39]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Fyrir skömmu gerði ég það að umtalsefni hér á Alþingi að upp gæti komið sú staða að markaðsráðandi fyrirtæki lékju sér að því að fá ódýrar auglýsingar með því að selja vörur undir kostnaðarverði og veiktu með því m.a. innlendan iðnað með slíku hringli með verð vörunnar, og sagði að slíkt væri ekki heimilt í öðrum löndum og jafnframt að þetta væru óheilbrigðir verslunarhættir. Nú hefur Guðmundur Sigurðsson, forstöðumaður samkeppnissviðs Samkeppnisstofnunar, sagt að ekki sé rétt að almennt sé bannað að selja vörur undir kostnaðarverði í öðrum löndum.

Ég hef hér í höndum minnisblað frá þessum sama manni frá árinu 1999 um það sem hann kallar skaðlega undirverðlagningu. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Að Noregi og Íslandi undanskildu er í framangreindum ríkjum og ríkjasamböndum misnotkun á markaðsráðandi stöðu bönnuð. Þetta þýðir að í þessum ríkjum er fyrir fram bannað að grípa til skaðlegrar undirverðlagningar og getur slík hegðun víðast hvar varðað sektum eða fangelsi.`` --- Enn fremur segir í þessu minnisblaði frá Samkeppnisstofnun, með leyfi hæstv. forseta: ,,Hér á landi og í Noregi er eins og áður sagði skaðleg undirverðlagning ekki fyrir fram bönnuð og getur slík hegðun markaðsráðandi fyrirtækja ekki leitt til viðurlaga. Samkeppnisyfirvöld geta hins vegar bannað slíka hegðun í einstökum tilvikum gagnvart tilteknum fyrirtækjum. Ef fyrirtækin brjóta bann samkeppnisyfirvalda getur það varðað viðurlögum.``

Það er því ljóst, herra forseti, að þessi starfsmaður Samkeppnisstofnunar hefur farið rangt með og þannig brugðist embættisskyldum sínum.