Orka um sæstreng

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 13:43:13 (379)

2002-10-09 13:43:13# 128. lþ. 7.96 fundur 163#B orka um sæstreng# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[13:43]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það mál sem hv. þm. tekur hér upp er þess efnis að ekki er um neinar skuldbindingar að ræða af hálfu Landsvirkjunar. Eingöngu er um það að ræða að athuga möguleika á virkjunarkostum ásamt þeim fyrirtækjum sem hér hafa verið nefnd, Statnet og Statoil, og það tel ég vera mjög mikilvægt. Til þess að um stefnumótun geti orðið að ræða af hálfu stjórnvalda á þessu sviði þurfum við að vita meira um það hvaða möguleika gæti verið um að ræða. Það verður ekki ljóst fyrr en eftir einhverja mánuði, sennilega eina sex mánuði.

Um nokkurt skeið hafa verið til athugunar möguleikar á þessu sviði af hálfu Landsvirkjunar. Landsvirkjun hefur í raun haft það hlutverk fyrir hönd stjórnvalda að kanna möguleika í sambandi við sæstreng og þá sölu á orku til annarra landa. En ég vil taka það hér fram að mér finnst aðalatriðið vera að nýta okkar endurnýjanlegu orku hér á Íslandi og mér finnst miklu síður áhugavert að flytja hana úr landi til atvinnuuppbyggingar í öðrum löndum. Ég get hins vegar ekki verið á móti því að þetta sé skoðað eins og nú hafa verið lögð drög að.

Ég tel það ákveðna viðurkenningu fyrir Ísland að þessi umræða skuli vera uppi og að sá áhugi sé til staðar hjá öðrum þjóðum að starfa með okkur á þessu sviði. Hugsanlega getur það verið ákveðin hvatning fyrir þær þjóðir sem búa yfir auðlindum af þessu tagi en hafa kannski ekki nýtt þær sem skyldi. En ég ítreka bara það að þetta mál er alls ekki í neinum forgangi. Það er eingöngu um það að ræða að þarna séu athugaðir möguleikar sem hugsanlega eru til staðar.