Einkavæðingarnefnd

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 13:55:03 (384)

2002-10-09 13:55:03# 128. lþ. 7.3 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[13:55]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil gjarnan spyrja, nota tímann meðan menn eru að tínast hérna út úr salnum og spyrja hæstv. forseta hvort ráðherrum hafi verið gerð grein fyrir því af hálfu stjórnar þingsins að nærveru þeirra var mjög saknað í umræðum um þetta dagskrármál í gær og þá sérstaklega þeirra ráðherra sem eiga beinan hlut að máli, forsrh., fjmrh. og utanrrh., sem allir sitja í sérstakri ráðherranefnd um einkavæðingu en hafa ekki látið sjá sig í umræðum og voru hvorki hér í gær né í dag. Leyfi ég mér að spyrja: Hafa þessir ráðherrar verið með fjarvistarleyfi frá þinginu bæði í gær og í dag?

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta hreint virðingarleysi við Alþingi og störf þess og auðvitað sérstakt virðingarleysi við verkefni þessara ráðherra nema að túlka beri fjarveru þeirra þannig að þeir þori ekki að vera hér við umræðuna og standa fyrir máli sínu, og þá skil ég það vel. Ég skil það vel að ráðherrar með hneyksli á bakinu, eins og SR-mjöl, Áburðarverksmiðjuna og Landssímann og núna bankana, megi illa við bindast í salnum. Það ber að vísu að taka fram að hæstv. iðn.- og viðskrh. Valgerður Sverrisdóttir hefur verið hér undir umræðunni og er það lofsvert og við kunnum henni að sjálfsögðu þakkir fyrir það.

Tillaga þessi, herra forseti, gengur út á það, sem reyndar bar á góma í umræðum um störf þingsins áðan, að öll frekari einkavæðing verði nú stöðvuð og Ríkisendurskoðun ljúki rannsóknarvinnu sinni sem er tvíþætt. Annars vegar hefur forsrh. í kjölfar þess að enn einn maðurinn hrökk fyrir borð í einkavæðingarnefnd óskað eftir því að sá þáttur málsins verði athugaður sérstaklega, þ.e. það sem lýtur að síðustu ákvörðunum og síðasta fyrirhuguðum áfanga í einkavæðingu bankanna. En þar hafa hlutir gengið með þeim endemum, eins og kunnugt er, að Steingrímur Ari Arason, einn reyndasti ef ekki reyndasti nefndarmaðurinn sem þá var orðinn í einkavæðingarnefnd, búinn að vera í henni að ég held frá upphafi, sagði af sér með nokkuð þungum ummælum um að öðrum eins vinnubrögðum og þar hefðu verið ástunduð hefði hann aldrei kynnst.

Við þær aðstæður, herra forseti, er auðvitað alveg fráleitt að hæstv. ríkisstjórn ani áfram til viðbótar svo öllu öðru sem mælir gegn því að spilin séu stokkuð upp. Hér er engin niðurstaða fengin í því hvort setja eigi einhverjar girðingar í lög sem tryggja dreifingu á eignarhaldi. Markaðsaðstæðurnar eru óhagstæðar. Mikil umræða er uppi akkúrat sömu mánuðina um hættuna á samþjöppun og fákeppni í íslensku atvinnu- og viðskiptalífi. Og það er bókstaflega ekki hægt að skilja hvernig menn ætla þá að spila inn í það umhverfi, því að bankarnir lendi í sömu höndum.

Er það ekki þá lógískt að þeir sem eru að sanka að sér kvóta í sjávarútveginum og blokkirnar sem eru að efla sig og skipta upp á milli sín markaðnum, oft til helminga, fái líka sinn bankann hvor? Það er til að fullkomna smíðaverkið. Og inn í þetta samhengi sem nú er spilar ríkisstjórnin á flautuna eins og raun ber vitni.

Það verður líka að segjast, herra forseti, að málflutningur stjórnarliða, þeirra fáu sem hafa treyst sér hér upp í umræðuna, hvað það varðar að reyna að gera gott úr öllu saman með því að einhverjar örfáar krónur sem koma inn við þá eignasölu, eigi þó að fara t.d. í vegaframkvæmdir, jarðgangaframkvæmdir úti á landi. Ég held að það séu 1.300 milljónir sem að nafninu til eru eyrnamerktar þannig jarðgangaframkvæmdum sem vel að merkja voru skornar niður á þessu ári. Það er nú allur myndarskapurinn á bænum.

En halda menn að menn kaupi þetta? Að með því að eyrnamerkja einhverjar tilteknar krónur út úr ríkissjóði þessum framkvæmdum, að þær hafi komið inn fyrir eignasölu en ekki fyrir skatta eða eitthvað annað, þá verði allir ánægðir? Ég held ekki. Allra síst fólkið á landsbyggðinni, sem þekkir af eigin raun hvernig einkavæðingin og hlutafélagavæðingin kemur við, hvernig þjónustan versnar og hverfur af stöðunum hverjum á fætur öðrum.

Ég sting því upp á því við hæstv. ríkisstjórn og stjórnarliða, fótgönguliðana sem voru að reyna að verja hana hér í gær, að þeir láti sér detta eitthvað annað skárra í hug en þetta, að halda að þeir kaupi góðvild þjóðarinnar gagnvart einkavæðingunni með því að einhverjar örfáar krónur sem þarna eiga að koma inn renni til einhverra slíkra verkefna. Þarfar og brýnar sem þær eru þá veitum við til þess fjármagn. Og það er nefnilega þegar til kastanna kemur enginn einasti munur á krónunum sem Geir Hilmar Haarde fær í kassann úr virðisaukaskatti eða tekjuskatti og hinum sem koma inn fyrir eignasölu. Þetta er bara allt sameiginlegt aflafé landsmanna. Auk þess er það væntanlega markmið í sjálfu sér ef menn ætla að selja eignir og nota þær í tiltekin verkefni að fá eitthvað fyrir þær en gefa þær ekki eins og þessi ríkisstjórn hefur gert aftur og aftur. Það liggur hér á borðinu og var farið yfir það í gær að það hafa verið hafðir milljarðar af þjóðinni með vinnubrögðunum. Það liggur algerlega fyrir. Eru það þá sterk rök inn í myndina að tala um að eitthvað örlítið af þessu eigi kannski að fara til einhverra tiltekinna verkefna frekar en annarra? Auðvitað er það allt saman orðhengilsháttur. Það skiptir auðvitað engu máli inn í heildarsamhengi ríkisfjármálanna hvort þessar krónur ganga til að borga niður skuldir eða ganga til að greiða inn á lífeyrisskuldbindingar og einhverjar aðrar fara í framkvæmdir. Það er beinlínis barnalegt að reyna að halda því fram fyrir menn sem eru búnir að læra samlagningu og frádrátt, hvað þá meira í stærðfræði, að þetta skipti einhverju máli. Þetta er bara ekki svona.

Til kastanna kemur svo það að lokum að sumar þessar eignir hafa skilað ríkissjóði miklum arði og það er augljóslega og borðleggjandi miklu vænlegra að eiga þær áfram og láta þær greiða arð, láta þær vaxa að verðmæti heldur en gefa þær frá hinu opinbera í eitt skipti fyrir öll. Hverju hefði þjóðin t.d. tapað ef hún hefði selt Landssímann fyrir tíu árum? Ef hún hefði selt Landssímann fyrir spottprís fyrir tíu árum? Hún hefði tapað sennilega upp undir 20 milljörðum sem uppreiknaðar arðgreiðslur Landssímans inn í ríkissjóð á þessum tíma eru orðnar, plús það að hún á enn þá Landssímann vegna þess að hún seldi hann ekki. Er það ekki munurinn? Það er nefnilega ekki nema þá helst á Vestfjörðum sem menn selja sömu eignina aftur og aftur, þ.e. skipshundinn fræga sem var seldur aftur og aftur og stökk alltaf frá borði og synti í land þannig að hægt var að selja hann í næsta skip. En það gerist ekki í þessu tilviki með eignir almennings og allra síst þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar á í hlut. Hún hefur ekki sýnt neina slíka snilld í viðskiptum og vantar mikið upp á.

Að lokum, herra forseti, legg ég mikla áherslu á að sú vinna sem Ríkisendurskoðun er nú með í höndunum, það væri að sjálfsögðu æskilegt að skýrslan væri komin nú þegar, hin fyrri, en viðameiri úttekt á störfum einkavæðingarnefndar, á öllu ferlinu er nú að fara í gang og þó að fyrr hefði verið og þá niðurstöðu þurfum við að fá. Mér finnst að það sé bara siðferðisleg skylda ríkisstjórnarinnar við þessar aðstæður að aðhafast ekki frekar fyrr en þeir hlutir hafa verið upplýstir. Það er engin stjórnsýsla að sullast áfram þegar málin samtímis sæta meira og minna opinberri rannsókn og láta eins og ekkert sé þannig að sú krafa, herra forseti, skal hér undirstrikuð að einkavæðingarnefnd verði leyst frá störfum og ekki aðhafst frekar í málinu.