Einkavæðingarnefnd

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 14:03:44 (385)

2002-10-09 14:03:44# 128. lþ. 7.3 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[14:03]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Sú umræða sem nú fer fram um tillögu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, þess efnis að einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar verði leyst frá störfum og frekari einkavæðing stöðvuð, hófst í gær og hefur verið athyglisverð fyrir ýmissa hluta sakir. Þannig var áberandi fjarvera þeirra ráðherra sem fyrir hönd ríkisstjórnarinnar bera sérstaklega ábyrgð á einkavæðingarferlinu og einkavæðingarnefndinni. Hún starfar nefnilega á vegum fjögurra ráðherra, tveggja ráðherra frá Sjálfstfl., hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar og hæstv. fjmrh. Geirs Haardes og frá Framsfl. eru í einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar, ráðherranefndinni, hæstv. viðskrh. Valgerður Sverrisdóttir og hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson, formaður Framsfl. Þar eru tveir frá hvorum flokki í samræmi við margfræga helmingaskiptareglu.

Aðeins einn ráðherra var viðstaddur umræðuna. Menn hafa þakkað fyrir það þótt varla eigi að þurfa að gera það. Svo sjálfsagt er að ráðherrar sinni þeirri skyldu sinni að vera við umræðuna þegar mál sem þá snerta eru til umfjöllunar á Alþingi, ekki síst þegar borin er fram svo alvarleg gagnrýni sem hér um ræðir.

Hæstv. viðskrh. blandaði sér í þessa umræðu í mýflugumynd. Hvað var það sem hæstv. ráðherra hafði til málanna að leggja? Jú, í fyrsta lagi að mönnum væri greinilega heitt í hamsi, það var athugasemd sem hæstv. ráðherra vildi gera. Í öðru lagi að einkavæðing væri nokkuð sem væri uppi á borðinu, þ.e. á döfinni um heim allan og þess vegna eðlilegt að við einkavæddum líka. Meira að segja í Kína, sagði hæstv. ráðherra, eru menn farnir að einkavæða og Kínverjar gengnir í Alþjóðaviðskiptastofnunina.

Tvennt vil ég nefna í framhaldi af inngripi hæstv. viðskrh. í þessa umræðu. Í fyrsta lagi hina þröngu heimssýn sem þarna birtist. Hæstv. ráðherra gerir sér ekki grein fyrir því að um gervalla heimsbyggðina fara fram átök á milli fjármagnsins annars vegar og almannavaldsins hins vegar, um hve langt eigi að ganga í að markaðsvæða almannaþjónustu. Það er tekist á um þetta um heim allan. Verkalýðshreyfing, almannasamtök og róttæk uppbyggileg stjórnmálaöfl skipa sér á annan vænginn og hins vegar er fjármagnið og afturhaldið á hinum vængnum. Það var greinilegt í hvorum flokknum hæstv. viðskrh. skipaði sér í sveit.

Fyrst minnst er á Alþjóðaviðskiptastofnunina þá eru einnig átök innan hennar um hvert skuli halda. Nú fara t.d. fram viðræður um svokallaða GATS-samninga, The General Agreement on Trade in Services, heitir það á ensku, og er til umfjöllunar í utanrrn. Því miður bendir margt til þess að verið sé að reyna að færa þær viðræður á bak við tjöldin og spurningum ekki svarað sem borist hafa frá verkalýðssamtökum t.d. um efni þeirra viðræðna. Þetta er það fyrsta sem ég vildi nefna, hina þröngu heimssýn sem birtist hjá hæstv. viðskrh. Hitt fannst mér miklu alvarlegra, að hæstv. ráðherra sæi ekki ástæðu til að svara þeirri gagnrýni sem sett var fram hér við umræðuna.

Ég gat um það í upphafi máls míns í gær að því færi fjarri að ég setti alla einkavæðingu undir einn hatt og að fyrirtæki sem sett hefðu verið á laggirnar með félagslegu átaki fyrr á tíð af hálfu sveitarfélaga og ríkis kynnu þegar fram líða stundir að eiga heima á markaði og ekkert óeðlilegt við að þau væru seld. Ég nefndi nokkur dæmi. Ég nefndi SR-mjöl, Síldarverksmiðjur ríkisins, ég nefndi Áburðarverksmiðjuna. Ég vil nefna Ferðaskrifstofu ríkisins, ég nefni prentsmiðju sem var í eigu ríkisins. Allt þetta finnst mér sjálfsagt að sé markaðsvætt ef aðstæður eru fyrir hendi. Við höfum ekki gagnrýnt það.

Við höfum hins vegar gagnrýnt hitt með hvaða hætti þetta var gert og á hvaða kjörum sú sala fór fram. Það sem við leggjum áherslu á hér er að halda til haga annars vegar pólitískum ágreiningi um einkavæðingu. Við getum haft mismunandi skoðanir á því hve langt eigi að ganga í því efni og hins vegar hinu hvernig staðið er að verki, hvaða reglum er hlítt og farið eftir og yfirleitt hvort einhverjar reglur séu í gildi og farið sé vel með almannafé. Út á þetta gengur málflutningur okkar. Þar tíndi ég til dæmin og bar saman erindisbréf ríkisstjórnarinnar til einkavæðingarnefndar og færði sönnur á að verklagsreglurnar hefðu verið brotnar, ekki hafi verið farið eftir þeim. Í sumum tilvikum, þar sem engar slíkar reglur er að finna, hafi sannanlega verið farið illa með almannafé. Þar nefndi ég fyrst þau fyrirtæki sem seld hafa verið, t.d. SR-mjöl sem var selt á spottprís. Þangað hafði verið veitt inn mörg hundruð milljónum rétt fyrir söluna og í tengslum við hana á eftir, vel á sjöunda hundrað milljónir en verksmiðjurnar seldar fyrir á áttunda hundrað millj. kr. Þarna fór 161 millj. kr. í milli í fyrirtæki sem núna er metið samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni á 4,3 milljarða. Reyndar var innstreymið úr ríkissjóði af skattpeningum inn í fyrirtækið miklu meira vegna þess að upp höfðu verið byggðar nýjar verksmiðjur á árunum og mánuðunum áður. Ég nefndi þetta sem eitt dæmi.

Ég nefndi líka Áburðarverksmiðjuna sem 1999 var seld fyrir 1.257 millj. kr. Síðan kom í ljós að á lager fyrirtækisins voru verðmæti sem metin voru á 750 millj. Í sjóðum fyrirtækisins voru 19 millj. Með öðrum orðum voru menn að fá vel innan við 500 milljónir gagnstætt því sem sagt var. Og hvað hefur síðan gerst? Allur pakkinn hefur verið seldur Reykjavíkurborg --- fyrir hvað? 1.300 millj. kr., 1,3 milljarða. Og fyrst þetta var í kortunum, að sjálfsögðu var þetta í kortunum, hvers vegna komu sérfræðingar ríkisstjórnarinnar ekki auga á þetta? Hvers vegna beindu þeir þeirri sölu ekki í annan farveg og stóðu þannig vörð um hagsmuni skattborgaranna, okkar? Þarna voru slæmar brotalamir.

Ég vék síðan að Landssímanum, fyrirtæki sem skilaði íslenskum ríkissjóði á tímabilinu 1988 og fram undir aldamót yfir 20 milljörðum kr. Það er samkvæmt yfirlýsingum einkavæðingarnefndar sjálfrar, formanns nefndarinnar á þeim tíma, Hreins Loftssonar, að það fyrirtæki var gert að eins konar hlutabréfasjóði, rekið eins og hlutabréfasjóður. Þegar forstjórinn fyrrverandi var spurður hvernig hann verði það að þeir hefðu tapað í braski 400 millj. með fjárfestingu í IP Bell, bandaríska fyrirtækinu sem var rekið af mönnum sem voru svo ruglaðir að líkja mætti við drukkna sjómenn --- þetta segi ég með fullri virðingu fyrir sjómönnum og líka drukknum sjómönnum --- en þetta var sagt á þeim tíma, þá sagði forstjórinn, Þórarinn V. Þórarinsson, eitthvað á þá lund að menn yrðu að hafa í huga að þetta fyrirtæki væri búið að fjárfesta fyrir 11 milljarða og mátti skilja að þetta væri ekki mikið. Finnst mönnum í lagi að fara svona með almannafé? Þetta eru eigur okkar og finnst mönnum ekki ástæða til að svara fyrir þetta?

Ég skil það mætavel að menn skuli hlaupa á dyr eða koma hingað upp í mýflugumynd með útúrsnúninga um að mönnum sé heitt í hamsi við þessa umræðu. Fyrr mætti nú vera og fyrr mætti nú vera dáðleysi að menn hefðu ekki skoðanir og það heitar á þessum málum. Þá væri blóðið hætt að renna í þjóðinni.

Ég vék síðan í ræðu minni að óeðlilegum tengslum nefndarmanna við atvinnulífið og sérstaklega þá geira sem snerta einkavæðinguna. Þegar ég segi óeðlilegum þá vísa ég til ríkisstjórnarinnar að skipa menn úr þeim geira í einkavæðingarnefnd. Ég nefndi tvo til sögunnar. Ég nefndi stjórnarformann Baugs og ég nefndi stjórnarformann Íslenskra aðalverktaka sem báðir hafa tengst einkavæðingarverkefnum. Á sínum tíma bjuggum við við ýmsa fjárfestingarsjóði atvinnulífsins, Fiskveiðasjóð, Iðnlánasjóð og fleiri sjóði sem voru sameinaðir undir hatti FBA, Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, sem nú hefur verið gleyptur af Íslandsbanka. Hvað var gert við þá sjóði? Hvað var byrjað á að gera með þessa sjóði? Það var byrjað á því að fara höndum um vörudreifingaraðila á markaðnum. Þegar upp var staðið stóð eftir risi sem er stærri og meiri og hefur meira einokunarvald á markaðnum en dæmi eru um frá einokunartímanum. Þetta er staðreyndin. Þetta voru afskipti einkavæðingarnefndar og afleiðing af einkavæðingarferlinu sem allir harma nú. Þarf ekkert að svara fyrir þetta? Þarf ekkert að ræða þetta? Finnst mönnum eðlilegt að setja í einkavæðingarnefnd sjálfan stjórnarformann þessa risa eða Íslenskra aðalverktaka?

[14:15]

Ég segi þetta ekki út í hött eða út í loftið. Ég tengi þetta við verkefni sem hafa farið til þessara fyrirtækja á vegum einkavæðingarnefndar. Ég nefndi Sóltún. Ríkisendurskoðun gagnrýndi það að verkefnið yrði ekki aftur boðið út heldur samið sérstaklega við þetta tiltekna fyrirtæki, Öldung hf. sem reisti Sóltún. Hver átti það? Það voru Securitas og Íslenskir aðalverktakar sem síðan reistu húsnæðið. Þarf ekkert að svara fyrir þetta? Hlaupa menn bara á dyr eða koma hingað í pontu með útúrsnúninga? Hvers konar lýðræðissamkunda er þetta eiginlega?

Síðan ræddi ég einnig og rifjaði upp að sitthvað hefði verið gagnrýnt um þóknanir til nefndarmanna eða þeirra sem koma að þessu einkavæðingarferli. Ég var ekki að gera úr því stærsta málið. Mér finnst eðlilegt að menn fái greidd laun fyrir sín störf. Ég er alls ekki að gagnrýna það. Ég segi hins vegar að ekki megi búa svo um hnúta að þeir hafi um þetta sjálftöku og ég gagnrýni að nefndarmenn sem eru skipaðir í nefndir af þessu tagi sem sérfræðingar snúi sér síðan út í bæ til að leita ráða hjá sérfræðingum sem bera sama nafn og þeir. Hreinn Loftsson leitaði til Hreins Loftssonar. Jón Sveinsson leitaði til Jóns Sveinssonar. Og þegar upp var staðið hafði annar frá 1996--2001 upp úr þessari vinnu 16,5 millj. rúmar og hinn rúmar 6,8 millj. Sumt af þessu eru fullkomlega eðlilegar greiðslur. Ég geri ekki athugasemdir við það. En ég er að tala um fyrirkomulagið, sjálftökuna, sjálfsákvörðunarréttinn sem þessum mönnum er fenginn í hendur. Þetta er óeðlilegt og þetta þarf að ræða.

Mér finnst ekki skipta máli hver pólitísk afstaða okkar er til einkavæðingar sem slíkrar. Við getum haft mismunandi skoðanir á henni. En ég hélt að við gætum öll sameinast um hitt, að eðlilega sé staðið að verki og vel sé farið með almannafé. Út á það gengur þetta.

Þar er ég kominn að því að rökstyðja tillögu okkar. Í janúarlok skrifuðum við forsn. þingsins bréf sem síðan kom beiðni okkar á framfæri við Ríkisendurskoðun um að fram færi úttekt á einkavæðingarferlinu og aðkomu einkavæðingarnefndar að því ferli. Við vísuðum sérstaklega í Landssímann en skírskotuðum engu að síður til alls ferlisins. Ég hef ekki tíma til að lesa upp úr þessu bréfi.

Fallist var á að gera þetta. Þessi vinna er núna í gangi. Það er verið að framkvæma hana. Það er líka verið að framkvæma þrönga, afmarkaða rannsókn á vegum forsrn. Einnig Ríkisendurskoðun framkvæmir hana. Við segjum: Þar til niðurstaða úr þessum rannsóknum og athugunum liggur fyrir er eðlilegt að leysa einkavæðingarnefnd frá störfum og frysta alla frekari einkavæðingu þar til umræða hefur farið fram um þetta efni.

Að lokum, herra forseti, leyfi ég mér að óska eftir því að þessu máli verði vísað til efh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.