Einkavæðingarnefnd

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 14:19:15 (386)

2002-10-09 14:19:15# 128. lþ. 7.3 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., LB
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[14:19]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að ég get tekið undir þau sjónarmið sem búa að baki þessari tillögu. Ég held að mikilvægt sé og skynsamlegt í þessari stöðu að leysa einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar frá störfum. Ég hins vegar geri það kannski á öðrum forsendum en hv. þingmenn Vinstri grænna. En það breytir ekki því að ég held að nauðsynlegt sé að fara strax í þetta verkefni.

Í mínum huga, virðulegi forseti, hefur ríkisstjórnin einfaldlega komið óorði á hugmyndir um einkavæðingu. Á mörgum sviðum er að mínu viti mikilvægt og skynsamlegt að færa verkefni frá ríkisvaldinu til einkaaðila, einkanlega vegna þess að ef fyrirtækin verða færð úr hinu pólitíska andrými og þessari frægu helmingaskiptareglu sem hefur gilt um meðferð ríkiseigna um langt skeið og færð yfir til einkaaðila er von til þess að agi markaðarins fái að einhverju leyti ráðið.

En því miður hefur ríkisstjórnin eiginlega farið gegn öllum þessum meginmarkmiðum. Það hefur t.d. verið mjög fróðlegt að hlýða á forseta þingsins, hv. þm. Halldór Blöndal, sem hefur komið hér upp sí og æ til þess eins að gagnrýna þá eftirlitsaðila sem eiga að fylgjast með að þær eignir sem eru seldar og komnar út á markað sinni verkum sínum. Setjum sem svo að við séum sammála um að víða megi færa verkefni frá ríkinu yfir til einkaaðila, þá er það mjög alvarlegur hlutur að þegar þau eru komin yfir til einkaaðila og yfir á markaðinn sé reynt að vega að þeim stofnunum sem ætlað er að tryggja að markaðurinn fái notið sín og virki eins og honum er ætlað. Það finnst mér vera mjög alvarlegur hlutur, virðulegi forseti.

Það hefur vakið sérstaka eftirtekt mína í þessari umræðu, sem ég hef fylgst með, að enginn hv. þm. úr meiri hlutanum, enginn hv. þm. sem hefur stutt ríkisstjórnina, hefur tekið til máls um þetta umræðuefni. Tveir hv. þm. hafa komið upp í andsvar en enginn hefur komið hér upp til að gera skýra grein fyrir sjónarmiðum sínum í þessari umræðu, og ég sakna þess. Ég teldi mikilvægt að heyra í þeim, ekki síst í því ljósi að þegar hæstv. ríkisstjórnin lagði af stað í þetta einkavæðingarferli hafði hún það markmið að selja eigurnar í dreifðri eignaraðild til þess að tryggja að í stað ríkiseinokunar og ríkisafskipta á mörgum sviðum skapaðist ákveðið lýðræði á markaðnum sem byggði einmitt á því að eignirnar væru seldar í dreifðri eignaraðild.

Frá þessari stefnu hefur verið horfið. Ég sakna þess að heyra ekki í þeim hv. þingmönnum sem styðja ríkisstjórnina, hvort þeir séu sáttir við þessa stefnubreytingu, hvort þessi stefnubreyting hafi verið rædd við þá, hvort þeir hafi að einhverju leyti komið að því að skapa þessa nýju stefnu. Hér er um algera stefnubreytingu að ræða. Ég trúi því ekki að þingmenn meiri hlutans séu svo geðlausir að þeir láti þetta yfir sig ganga án þess a.m.k. að rökstyðja stefnubreytinguna, án þess a.m.k. að rökstyðja annað en það að þeir einfaldlega snúist eins og þeim er skipað. Ég held að mikilvægt sé að þetta komi skýrt fram í þessari umræðu svo þeim verði ekki borið það á brýn að sigla einungis eins og vindarnir blása þeim.

Það gefur augaleið, virðulegi forseti, að ef við færum eignir frá ríkisvaldinu yfir á markaðinn erum við að reyna að ná fram því sem einkareksturinn hefur fram yfir ríkisreksturinn. Það gerist ekki nema agi markaðarins fái notið sín, og það gerist ekki nema eftirlitsstofnanir og aðrir sem eiga að tryggja þetta agavald á markaðnum fái starfað óþvingað.

Því hefur verið mjög sérstætt að hlýða á þingmenn Sjálfstfl. á hinu háa Alþingi, hvernig þeir hafa hjólað æ ofan í æ undir forustu forseta þingsins, Halldórs Blöndals, gegn þeim stofnunum sem er ætlað að tryggja þetta agavald á markaðnum, með rökum sem þola vart dagsljósið, rökum sem halda hvorki vatni né vindum. Það er dálítið sorglegt að svona skuli vera komið fyrir þeim flokki sem kennt hefur sig við frelsi, samkeppni og einkavæðingu.

Þá hefur ekki síður verið fróðlegt að hlýða á hæstv. forsrh. sem hefur haft ríkar skoðanir á matvöruverslun, og þá hefur skipt miklu hver á matvöruverslanirnar en ekki hefur verið fjallað um það efnislega hvernig markaðurinn hefur þróast á þessu sviði.

Virðulegi forseti. Það kemur mér verulega á óvart og ég harma það mjög að menn hafi ekki komið hér fram, hv. þingmenn meiri hlutans, til að rökstyðja vandlega og fara yfir hverju þessi kúvending í umræðunni sæti og hvort þeir ætli að láta það yfir sig ganga að koma í raun óorði á hugmyndir um einkavæðingu, eins og hér hefur gerst á undanförnum missirum. Í upphafi síðustu viku var hér umræða um þá kúvendingu sem átt hefur sér stað í sölu á bönkunum sem enginn hefur getað útskýrt á annan hátt en þann að gamli helmingaskiptadraugurinn gangi aftur. Það hefur verið farið vandlega yfir þetta og það rætt víða, og hvergi hafa menn komið fram með rökin, hvergi nokkurs staðar. Síðan var það hæstv. forsrh. sem tók steininn úr í einhverri ræðu með því að lýsa því yfir að kannski mundi þetta einhvern tíma á síðari stigum fara hvort eð er á fáar hendur og þá væri alveg eins gott að gefast bara upp strax.

Virðulegi forseti. Ég sakna þess mjög að fulltrúar meiri hlutans á hinu háa Alþingi skuli ekki geta gert betri grein fyrir afstöðu sinni í þessum málum.