Einkavæðingarnefnd

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 14:44:04 (389)

2002-10-09 14:44:04# 128. lþ. 7.3 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[14:44]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel ástæðu til að koma aðeins inn á eitt atriði sem hv. þm. fjallaði um í ræðu sinni. Það var þetta með samkeppnina. Hvar finna menn þessa samkeppni? Þá vil ég rifja það upp að það var a.m.k. ekki talið rétt af hálfu samkeppnisyfirvalda að sameina þá tvo banka sem nú stendur til að selja hvorn í sínu lagi. Þar var að sjálfsögðu farið að þeim leiðbeiningum sem komu frá samkeppnisyfirvöldum en ég get alveg tekið undir það að samkeppnin mætti vera miklu meiri í bankarekstri. Kannski á hún eftir að aukast og þá er ég ekki síður að hugsa um það að hún geti farið þannig fram, þ.e. þegar við erum komin með netið og allir með aðgang að netinu, að einstaklingar eigi viðskipti við banka erlendis. Við horfum þannig vonandi fram á meiri samkeppni í framtíðinni í bankarekstri almennt.

Svo er það dreifða eignaraðildin sem hv. þm. talar um og við tókum smáumræðu um fyrir nokkrum dögum utan dagskrár. Ég tel að það sé í raun bara sýndarmennska að tala um að selja eigi þetta dreift vegna þess að við getum ekki sett það í lög. Við getum það ekki út af Evrópska efnahagssvæðinu. Við erum aðilar að því og þar er það ekki heimilt.

Ég man eftir því að hv. þm. kallaði fram í og nefndi Norðmenn og Ítali um daginn þegar umræðan fór fram. Það var mikið talað í salnum meðan ég hélt síðari ræðu mína svo að ég komst varla að. En sannleikurinn er sá að Norðmenn eru að hætta við þetta fyrirkomulag. Þeir ætla að breyta lögunum og taka út ákvæðið um 10% markið og hámarkið. Það er út af Eftirlitsstofnun EFTA. Hvað Ítali varðar þá eru þeir í allt öðru umhverfi en við. Þeir eru m.a. aðilar að Evrópusambandinu og lúta ekki sömu eftirlitsstofnun og við. Þeir eru með einhvers konar bráðabirgðafyrirkomulag þannig að þeir munu fara inn í þetta fyrirkomulag líka, að verða að hafa það þannig að ekki megi lögbinda dreifða eignaraðild.