Einkavæðingarnefnd

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 14:46:29 (390)

2002-10-09 14:46:29# 128. lþ. 7.3 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[14:46]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nefna það að ég skildi hæstv. ráðherra þannig, í upphafi andsvars hennar, að hún legði út af því að ekki hafi verið um það að ræða að bankar yrðu sameinaðir. Ég þori að fullyrða að það hefði ekki aukið á samkeppni á bankamarkaði ef Landsbankinn og Búnaðarbankinn hefðu verið sameinaðir á sínum tíma. Í ljósi þess að ég er talsmaður aukinnar samkeppni var ég ánægður með þá niðurstöðu og taldi hana til heilla.

Varðandi spurninguna um hvort hægt sé að binda í lög reglur þess efnis að tryggja dreifða eignaraðild vil ég segja að ég held, virðulegi forseti, að hér sé fyrst og fremst um pólitískan vilja að ræða. Ég veit að í Noregi eru það reyndar 15% sem menn hafa bannað einum og sama aðilanum að eiga að undanskildu því að fjármálastofnanir geta átt hver í annarri án þess að það sé bundið við þau mörk. Ég mótmæli því líka að Ítalir búi við annað fyrirkomulag en við. Bæði þessi lönd eru á Evrópska efnahagssvæðinu og um þetta gilda nákvæmlega sömu reglur. Síðan hefur Eftirlitsstofnun EFTA verið að gera athugasemdir við þetta, ég þekki það, en það eru vissulega leiðir til að tryggja að af þessu geti orðið. Menn geta fest í sessi reglur þess efnis að skylda menn til að kaupa upp bréf, gera yfirtökutilboð í önnur bréf. Menn geta farið ýmsar leiðir til að ná þessu mikilvæga markmiði, að dreifð eignaraðild sé í fyrirtækjum sem fara með jafnmikið vald og bankarnir gera.

Sagt hefur verið að peningar séu hreyfiafl, þeir færi hlutina úr stað. Við getum ekki sætt okkur við það. Við getum ekki sætt okkur við að þetta afl sé aðeins einum aðila falið. Það er mjög misráðið, virðulegi forseti.