Viðskiptabankar og sparisjóðir

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 14:49:49 (392)

2002-10-09 14:49:49# 128. lþ. 7.4 fundur 8. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (stofnfjárhlutir) frv., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[14:49]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum. Þetta frv. gengur í höfuðdráttum út á tvennt. Í fyrsta lagi að nema úr gildi breytingar sem festar voru í lög á sl. vori sem heimiluðu sparisjóðum að umbreyta sér í hlutafélög, þ.e. heimiluðu stjórnum sparisjóðanna að gera þá að hlutafélögum. Þessa heimild viljum við nema úr gildi. Í annan stað viljum við breyta reglum um framsal stofnfjárhluta og verslun með þá og girða fyrir það í lögum að stofnfjáreigendur geti verslað með þessi bréf á yfirverði. Okkur þykir eðlilegt að þeir fái eðlilegt verð fyrir þessi bréf, uppfært samkvæmt verðbólgu, en geti ekki fengið margfalt þetta verð.

Eins og menn þekkja var þetta mjög til umræðu í sumar. Um mitt sumar kom þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs saman og ályktaði um þetta efni á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

,,Af umræðu síðustu daga um hlutafélagavæðingu og yfirtöku SPRON virðist ljóst að endurskoða þarf nýleg lög um sparisjóði þannig að eðli þeirra, markmið og þjónustuskyldur verði tryggð.

Hlutverk sparisjóðanna hefur verið að stuðla að uppbyggingu atvinnulífs og menningarstarfs í viðkomandi byggðarlögum, en ekki að hámarka arð einstakra stofnfjáreigenda. Sérstaklega hafa sparisjóðirnir sinnt því mikilvæga hlutverki að veita almenningi og ekki síst minni fyrirtækjum þjónustu. Minnt er á að í samþykktum sparisjóðanna er skýrt kveðið á um að sé hlutverki sparisjóðs lokið og ákveðið að leggja hann niður skuli eignir að frátöldum skuldum og greiðslum til stofnfjáraðila renna til líknar- og menningarmála á starfssvæði viðkomandi sparisjóðs. Stærstur hluti eigin fjár sparisjóðanna er því í raun samfélagseign og sameign menningar- og líknarfélaga á starfssvæði sjóðanna. Allar breytingar á eignarformi eða rekstri sem ganga á svig við þessa hugmyndafræði og tilgang sparisjóðanna eru brot á þeim samþykktum sem kveða á um tilveru þeirra.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs vöruðu við þeim breytingum sem samþykktar voru á Alþingi vorið 2001 sem m.a. heimiluðu hlutafélagavæðingu sparisjóðanna. Það var álit þingflokksins að lagabreytingarnar væru hroðvirknislega unnar og lögin byðu þeim hættum heim sem nú hafa komið á daginn. Þingflokkurinn lagði það til að opnað yrði fyrir öðrum leiðum til að styrkja hag og samkeppnisstöðu sparisjóðanna, ef þess reyndist þörf.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hvetur til þess að frestað verði öllum áformum um hlutafélagavæðingu einstakra sparisjóða og öðrum grundvallarbreytingum á eignarhaldi þeirra. Hag sparisjóðanna ber að tryggja án þess að fallið sé frá grundvallarhugsjónum þeirra og þjónustuskyldum við það samfélag sem þeir starfa í.``

Hér hef ég lokið upplestri á ályktun sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sendi frá sér 27. júní í sumar. Við höfðum uppi orð um það síðsumars að vel gæti komið til álita af okkar hálfu, ef þing yrði ekki kallað saman sem eðlilegast hefði verið að gera, að bráðabirgðalög yrðu gefin út til að koma í veg fyrir brask með stofnfé eins og þá var á döfinni og uppi á borðum. Þetta var því miður ekki gert en í samræmi við þennan vilja okkar leggjum við þetta frv. nú fram í upphafi þings og vonum að það hljóti samþykki.

Reyndar er það svo að þær breytingar sem við leggjum til virðast í anda þess sem þingið taldi felast í þeim lögum sem samþykkt voru á sl. vori, a.m.k. varðandi sölu á stofnfé. Hitt vildu menn láta reyna á, að sjóðunum yrði veitt heimild til að breytast í hlutafélög. Við teljum hins vegar að í ljósi þeirra aðstæðna sem upp komu eftir að lögin voru samþykkt, þ.e. eftir að þessar lagabreytingar voru gerðar, beri að endurskoða þetta.

Ástæðan fyrir því að við lögðumst ekki mjög hart gegn þessum breytingum sl. vor var sá vilji sem virtist almennur í sparisjóðunum, að þessar heimildir ætti að veita. Menn vildu opna á þessa möguleika, margir hverjir. Hins vegar höfum við haft spurnir af því að þessi viðhorf séu mjög breytt eftir atburði sumarsins. Við höfum kannað þetta hjá stjórnarmönnum í sparisjóðunum og starfsmönnum sparisjóðanna og þar höfum við sannfærst um að við förum með rétt mál.

Varðandi fyrri lagabreytinguna sem við leggjum til og lýtur að verslun með stofnfé voru þær breytingar sem þetta frv. felur í sér í samræmi við vilja Sambands íslenskra sparisjóða. Sambandið lagði hreinlega til við þingmenn og þingflokkana að við reyndum að ná fram þessum lagabreytingum.

Að hinni breytingunni stöndum við hins vegar ein í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, vonumst þó til að fá fylgi við það í þingsalnum, að nema úr gildi heimildina til að breyta sparisjóðunum í hlutafélög.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta mjög langt mál. Mér finnst gott að fá þetta til umfjöllunar í upphafi þings og mikilvægt að það komist til nefndar hið allra fyrsta. Málinu hefur verið vísað til efh.- og viðskn. því að þar mun það eiga heima. Að öðru leyti vísa ég til greinargerðar sem fylgir frv. og fylgigagna. Þar er að finna blaðagreinar sem hv. þm. Jón Bjarnason hefur ritað um þetta mál í sumar í aðskiljanleg blöð og tímarit.

Að lokum, herra forseti, vil ég vitna í athugasemdir sem fylgdu frv. viðskrh. á 126. löggjafarþingi en þar segir, með leyfi forseta:

,,Sparisjóðir á Íslandi, líkt og annars staðar í Evrópu, eru fyrst og fremst staðbundin fjármálafyrirtæki með sterk tengsl við starfssvæði sitt og nána samvinnu sín á milli. Sparisjóðirnir hafa verið reknir með hag sparifjáreigenda og almennings fyrir augum en ekki til hámarksarðs fyrir stofnfjáreigendur. Markmiðið með rekstrinum var því að stuðla að almannahag.``

Brýnt er að þetta markmið glatist ekki.