Viðskiptabankar og sparisjóðir

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 14:57:42 (393)

2002-10-09 14:57:42# 128. lþ. 7.4 fundur 8. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (stofnfjárhlutir) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[14:57]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur mælt fyrir frv. til laga um breyting á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði sem við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, flytjum. Það felur í sér þrengingu á þeim lagaheimildum sem veittar voru, einkum sl. vetur, en þær hafa verið túlkaðar með þeim hætti að heimilt væri að selja stofnfjárhluti sparisjóðanna á tilboðsverði. Jafnframt felur þetta frv. sem við leggjum til í sér að sú heimild sem veitt var þá til hlutfélagavæðingar á sparisjóðunum verði numin úr gildi, a.m.k. meðan verið er að vinna þessi mál frekar þannig að meiri sátt verði um.

Herra forseti. Jafnframt er rétt að vekja athygli á því að einkavæðing og sala á almannaeignum hefur verið einn af hornsteinum stefnu þessarar ríkisstjórnar. Einn mikilvægasti þátturinn í stjórnarsáttmálanum er sala á ríkiseignum, sala á almannaþjónustufyrirtækjum, hvort sem þau heita Landssími, bankar eða sparisjóðir. Rétt þótti að hlutfélagavæða sparisjóðina. Það þurfti því ekki að koma á óvart að nú í sumar kom upp sterk hreyfing hjá einstaklingum og hópum einstaklinga til að komast yfir eignir sparisjóðanna. Fyrst og fremst að komast yfir þær og ná valdi á þeim og í öðru lagi að fá þær á sem hagkvæmustu verði. Þessi atrenna varð mjög hörð og var tvísýnt um hvernig færi. Sparisjóðirnir virtust því standa lagalega berskjaldaðir fyrir þessu áhlaupi.

Það var einmitt í því ljósi sem við, þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, sendum frá okkur ályktun þegar í upphafi þessarar hörðu atrennu að sparisjóðnum. Hv. þm. Ögmundur Jónasson las hana upp nú áðan og þar mæltumst eindregið til þess að allri frekari hlutafjárvæðingu á sparisjóðunum yrði frestað og hún sett á ís meðan farið yrði yfir þetta mál.

[15:00]

Sparisjóðirnir hafa nefnilega verulega sérstöðu sem peningastofnanir meðal þjóðarinnar. Þeir voru flestir stofnaðir snemma á síðustu öld og meginhluti eigin fjár þeirra er í sjálfseign og í reynd í eigu almennings, þess nærsamfélags sem viðkomandi sparisjóður þjónar. Þeir hafa veitt almenna fjármálaþjónustu á starfssvæði sínu og unnið á grundvelli hugsjóna um eflingu og uppbyggingu atvinnulífs og menningarstarfs á sínu heimasvæði. Markmið þeirra hefur ekki verið að hámarka arðgreiðslur til einstakra stofnfjáreigenda.

Afar ströng skilyrði voru sett fyrir starfsleyfum sparisjóðanna. Þeir voru menningar- og þjónustustofnanir og nutu t.d. af þeim sökum skattfrelsis allt til ársins 1983. Í samþykktum sparisjóðanna er kveðið á um slit sjóðanna sem kveða á um að aðeins sé heimilt að sameina sparisjóð öðrum sparisjóði. Þegar skuldir sparisjóðsins hafa verið greiddar upp vegna slita á starfsemi hans skal greiða stofnfjáreigendum eignarhlut þeirra af eftirstöðvum sjóðsins. Þeim eignum er þá kunna að vera eftir skal ráðstafað til menningar- og líknarmála á starfssvæði sparisjóðsins. Í þessu endurspeglast sá grundvallarmunur sem er á sparisjóði og hlutafélagsbanka sem starfar eins og hvert annað fyrirtæki.

Virðulegi forseti. Í hugum fólks stendur heitið sparisjóður fyrir ofangreind gildi. Sé þessum grundvallarmarkmiðum breytt eru jafnframt forsendur brostnar fyrir því að halda peningum saman í nafni viðkomandi sparisjóðs og bæri þá frekar að leysa hann upp og ráðstafa eigum hans eins og stofnsamþykktir kveða á um. Engu að síður, herra forseti, er staðreyndin sú að fjölmargir sparisjóðir gegna lykilhlutverki í atvinnu- og menningarlífi margra byggðarlaga. Þeir eru hornsteinninn í fjármálaþjónustu við einstaklinga og lítil og meðalstór fyrirtæki á sínum starfssvæðum. Það yrði því veruleg skerðing á þjónustu og umsvifum vítt um land ef sparisjóðirnir yrðu græðgi einkafjármagnsins að bráð. Þess vegna leggjum við til að heimildir til einkavæðingar og sölu á sparisjóðunum verði felldar úr lögum og mál sparisjóðanna skoðuð út frá þeim grunni sem þeir voru stofnaðir á.

Herra forseti. Það er mjög gott fyrir þá sem eru að fjalla um sparisjóðina að kynna sér rit sem heitir ,,Sparisjóður Dalasýslu --- Aldahvörf --- 1891--1995`` og er tekið saman af Friðjóni Þórðarsyni, fyrrv. alþingismanni og ráðherra. Friðjón var jafnframt í stjórn Búnaðarbanka Íslands og bankaráði um áratugabil, líklega lengst þeirra manna sem þar hafa starfað, í 32 ár, lengst af sem varaformaður en einnig sem formaður bankaráðs Búnaðarbankans um skeið. Jafnframt var hann formaður stjórnar Sparisjóðs Dalasýslu. Það fór svo fyrir Sparisjóði Dalasýslu svipað og nokkrum öðrum sparisjóðum að þeir völdu að sameinast ákveðnum bankastofnunum, einkum Búnaðarbankanum og Landsbankanum. Þeir gerðu það í þeirri vissu að þessir bankar yrðu áfram ríkisbankar og mundu axla þá ábyrgð og þjónustu sem sparisjóðirnir áður höfðu í þessum byggðarlögum. Þetta á t.d. við um Sparisjóð Dalasýslu, Sparisjóð Stykkishólms, Sparisjóð Akraness og Sparisjóð Sauðárkróks svo nokkrir séu nefndir. Þessir sparisjóðir gengu inn í þessa banka þar sem þeir töldu að með því væru þeir að styrkja fjármálaþjónustuna í heimabyggð og jafnframt í þeirri vissu að þessir bankar yrðu áfram í eigu þjóðarinnar allrar.

Það er t.d. táknrænt um hvernig þessir sparisjóðir störfuðu að Sparisjóður Dalasýslu ákveður á 50 ára starfsafmæli sínu að minnast eins merks brautryðjanda síns, Bjarna Jenssonar í Ásgarði, með því að leggja fram fjármagn sem nam stofnkostnaði herbergis í heimavist Háskóla Íslands sem hefur nú nafnið Ásgarður. Þetta er dæmi um það hvernig sparisjóðirnir komu að menningarmálum í byggðarlögum sínum. Hv. fyrrv. þm. og ráðherra, Friðjón Þórðarson, segir í fyrrnefndri bók, með leyfi forseta:

,,Á sparisjóðsfundi 13. maí 1965 var samþykkt að ganga til samstarfs við Búnaðarbanka Íslands um stofnun útibús frá bankanum í Búðardal. Einnig var staðfest samþykkt síðasta stjórnarfundar um ráðningu Skjaldar Stefánssonar, sýsluskrifara, í starf sparisjóðsstjóra. [...]

Þess skal getið, að staða mála hjá Sparisjóði Dalasýslu var í góðu horfi um þessar mundir. Hann hafði vaxið jafnt og þétt ár frá ári og aukið útlán til gagnlegra framkvæmda í héraðinu. Fjárráð sjóðsins voru því rúm, svo að fáir þurftu að ganga bónleiðir til búðar, sem á lánsfé þurftu að halda. Lán eða skuldir voru í fullum skilum. Þegar Búnaðarbankinn tók við rekstrinum, var aðeins einn tíu þúsund króna víxill í vanskilum, en hann greiddist upp innan fárra vikna.`` Og áfram vitna ég í þetta ágæta rit Friðjóns Þórðarsonar:

,,Það skal skýrt og greinilega tekið fram, að slíkur samningur`` --- sem síðan var gerður við Búnaðarbankann --- ,,hefði alls ekki verið gerður nema við ríkisbanka, sem menn töldu sig geta treyst, að starfa myndi á sama grunni til frambúðar. Samningurinn allur ber þess glögg merki.``

Herra forseti. Síðan er þessi samningur sem Sparisjóður Dalasýslu gerir við Búnaðarbankann um margt merkilegur. Hann er settur upp sem gagnkvæmur. Í samningnum eru Búnaðarbanka Íslands falin verkefni sparisjóðsins en sparisjóðurinn er ekki lagður niður. Og í einu paragrafinu stendur, með leyfi forseta:

,,Búnaðarbanki Íslands mun virða allar skriflegar skuldbindingar sparisjóðsins gagnvart innistæðueigendum.``

Áfram segir, með leyfi forseta:

,,Þegar útibú Búnaðarbankans hefir yfirtekið rekstur sparisjóðsins, lofar stjórn Búnaðarbankans, að útibúið starfi með líkum hætti í grundvallaratriðum og sparisjóðurinn rækir starfsemi sína nú og veiti, eftir því sem hægt er, víðtækari þjónustu, enda er tilgangurinn með stofnun útibúsins sá að örva viðskipti og stuðla að rýmri lánastarfsemi með héraðshagsmuni fyrir augum. Lýsir bankastjórnin yfir í því sambandi að bundin innistæða sparisjóðsins í Seðlabankanum mun verða afhent útibúinu sem starfsfé.

Ef útibú bankans verður lagt niður, skal það sameinast Sparisjóði Dalasýslu, ef það verður þá ósk forráðamanna sjóðsins og fer þá fram yfirtaka á starfsemi útibúsins, eignum þess og skuldum með svipuðum hætti og hér er gert af hálfu Búnaðarbankans.``

Þessi samningur sem Sparisjóður Dalasýslu gerir þarna við Búnaðarbankann er um margt athyglisverður þannig að líta má svo á að standi þessi samningur, sem enginn efi er á, a.m.k. vonandi ekki, getur Sparisjóður Dalasýslu kallað aftur til sín starfsemi Búnaðarbankans í Búðardal verði hann seldur eða honum breytt. Væri fróðlegt að vita og kanna og styðja Dalamenn í að standa við það ef sú verður raunin.

Herra forseti. Það er því afar mikilvægt að við stöndum vörð um sparisjóðina í landinu og forðum þeim frá því að lenda í klóm þeirra sem ásælast almannafé, ná völdum yfir því og stjórna í krafti þess.

Ég hygg, herra forseti, að það sé einnig mjög brýnt að sparisjóðirnir í landinu og aðstandendur þeirra fái hér tækifæri til að koma að þessu máli, gefa umsögn um það hvernig þeim finnst að þróun mála hafi orðið sl. sumar þegar tókst, fyrst og fremst með andstöðu fólksins í landinu, að hrinda sölu á sparisjóðunum, eða yfirtöku þeirra, eins og var að fara í gang. Það er rétt að þeir fái að koma að þessu máli og segja hug sinn varðandi þessa tillögu sem hér er flutt um að allri sölu og hlutafélagavæðingu á sparisjóðunum verði slegið á frest. Hún verði numin úr gildi meðan lögin verða endurskoðuð og starfsemi sparisjóðanna styrkt um land allt og að þeir geti þjónað þeim hlutverkum og verkefnum sem þeir voru stofnaðir til.

Ég legg áherslu á, herra forseti, og tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að mál þetta fái sem greiðastan framgang í þinginu og geti komið til afgreiðslu þess aftur.