Viðskiptabankar og sparisjóðir

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 15:11:36 (395)

2002-10-09 15:11:36# 128. lþ. 7.4 fundur 8. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (stofnfjárhlutir) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[15:11]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þm. er að gera því skóna að ég eða aðrir íbúar þessa lands séum eitthvað á móti Reykjavík er það mesti misskilningur. Og ég tel einmitt að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefði bara átt að samfagna og bera virðingu fyrir því þegar Sparisjóður Dalasýslu ákveður að styrkja heimavist Háskóla Íslands með herbergi í nafni eins mesta bændahöfðingja Dalamanna og eins af ábyrgðarmönnum sjóðsins um áratugabil. Það fylgdi reyndar með ósk en ekki bein krafa um að nemendur úr Dalasýslu gætu átt nokkurn forgang að herberginu ef svo færi. Dalamenn bera umhyggju fyrir sínu fólki. Það er líka svo, herra forseti, að sparisjóðirnir geta einmitt styrkt stöðu sína með auknu samstarfi, eins og þeir hafa gert með stofnun Reiknistofu og sameiginlegri vinnu. Það er ekkert óeðlilegt í sjálfu sér að sú starfsemi geti verið hér í Reykjavík. Það hefur enginn á móti Reykjavík sem slíkri. Sjálfsagt gæti slík þjónusta verið hvar sem er á landinu en það að hún sé staðsett í Reykjavík á síður en svo að útiloka að hún fari fram. Þær dylgjur eða aðdróttanir sem hv. þm. kemur inn með á þessum grunni eru málefnalega út í hött.