Viðskiptabankar og sparisjóðir

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 15:13:22 (396)

2002-10-09 15:13:22# 128. lþ. 7.4 fundur 8. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (stofnfjárhlutir) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[15:13]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Fyrir stuttu samþykkti hv. Alþingi lög sem heimiluðu sparisjóðum að breyta sér í hlutafélög, að hætta að vera sparisjóðir. Hv. þm. geta ekki borið fyrir sig að þeir hafi ekki vitað að sá möguleiki væri til staðar sem mikil umræða varð um í sumar þegar Búnaðarbankinn gerði yfirtökutilboð í Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis vegna þess að ég gat um þetta dæmi sérstaklega í ræðu hér á Alþingi. Ég sagði nákvæmlega fyrir um þennan möguleika hér á Alþingi þannig að hv. þm. geta ekki sagt að þeir hafi ekki skilið frv. Núna, þegar þeim líkar ekki niðurstaðan af frv. eru þeir ekki tilbúnir til að málið fari fyrir dómstóla eins og eðlilegt er þegar ágreiningur er í máli. Nei, þeir ætla að fara að hætti einvalda fyrri tíma, koma með tilskipanir og breyta lögunum eftir á af því að þeim líkar ekki niðurstaðan. Þetta er ekki í samræmi við lýðræðiskenningar nútímans, að stjórnvöld vinni með tilskipunum. Við höfum þrískiptingu valdsins, og dómstólar eiga að skera úr ágreiningi en ekki löggjafarsamkundan þegar henni líkar ekki niðurstaðan eða ef hún gerir mistök.

Það sem hér er um að ræða er draumurinn um litla sæta sparisjóðinn í heimabyggðinni sem kristallaðist í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar rétt áðan. Því er til að svara að sparisjóðir hafa löngum haft hærri vaxtamun en aðrar bankastofnanir. Þeir hafa verið með hærri þóknanir en aðrar bankastofnanir sem að einhverju leyti helgast af litlum einingum og smásölu en er ekki beint félagslegt. Og hagnaður hefur farið í að byggja upp eigið fé en aðeins að litlu leyti til að greiða til líknar- og menningarmála eins og þó er meiningin. Starfsemi sparisjóðanna er í dag í engu frábrugðin ósköp venjulegri bankastarfsemi.

[15:15]

En hver er framtíð sparisjóðanna að óbreyttu rekstrarformi? Viðskiptavinir bankastofnana á Íslandi, jafnt sparisjóða sem banka, gera kröfu um góða þjónustu, alþjóðlega þjónustu. Menn vilja fá upplýsingar um gengi hlutabréfa í Japan eða í Bandaríkjunum, menn vilja fá góða og haldbæra þjónustu og upplýsingar um bestu kosti í sparnaði og fjárfestingum og bestu ráðleggingar varðandi lánveitingar. Þetta er ekki hægt nema með miklu og góðu upplýsingakerfi, miklum tölvukerfum sem gera það að verkum að sparisjóðurinn í heimabyggðinni, lítilli heimabyggð er engan veginn fær um að gera þetta nema með mjög miklu og nánu samstarfi allra sparisjóða. Þá er líka spurningin hvaða möguleika sparisjóðurinn hefur til að lána til meðalstórra fyrirtækja ef þeir eiga að gæta að sæmilegri útlánadreifingu og áhættudreifingu. Það geta þeir ekki heldur. Þannig að þróun síðasta áratugs gerir það að verkum að sparisjóðirnir fá varla staðist með núverandi formi á markaðnum, fyrir utan það að þeir eiga mjög óhægt um vik að afla sér nýs fjármagns. Það er þess vegna sem sparisjóðirnir höfðu frumkvæði að því að lagasetningin nýverið var sett. Það voru sparisjóðirnir sem höfðu frumkvæði að því. (Gripið fram í: Þeir áttuðu sig ekki á ...) Þeim var bent á það, herra forseti, varðandi þetta frammíkall, þeim var bent á hvað það gæti haft í för með sér. Þeir höfðu frumkvæði að því og stjórn SPRON tók meira að segja ákvörðun um að breyta SPRON í hlutafélag 28. júní sl. vegna þess að hún taldi Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis ekki lífvænlegan í óbreyttu rekstrarformi. Þetta skyldu menn hafa í huga. Það er ekki bara ég sem hef bent á þetta, herra forseti, heldur er þetta frv. til að breyta rekstrarformi sparisjóðanna úr því að vera lítill sætur sparisjóður í það að vera hlutafélag eða banki. Nákvæmlega eins og aðrir bankar. Til þess að geta sameinast, til þess að geta unnið saman o.s.frv. Menn eru að bregðast við ákveðinni þróun, herra forseti, nákvæmlega eins og kaupfélögin urðu að bregðast við ákveðinni þróun þegar þau urðu úrelt. Þetta er gamalt form. Það var göfugt á sínum tíma o.s.frv.

Frumvarpið sem við ræðum hér er þannig að í 1. gr. er sala og annað framsal stofnfjárhluta í sparisjóði óheimil nema með samþykki sparisjóðs og endurgjaldið skal vera ákveðið. Og það má ekki selja nema væntanlega til eins aðila. Þetta er svona svipað og ef sett væri í lög að hv. 1. flm., Ögmundur Jónasson, mætti ekki selja bílinn sinn nema ákveðnum aðila og mætti ekki framselja hann nema verðið væri ákveðið nægilega lágt og af því að hv. þm. er nú svo göfugur þá hlýtur bíllinn hans að vera göfugur líka og það fé sem bundið er í honum og þá megi ekki selja hann á of háu verði þó einhver vilji kaupa. Þetta er að sjálfsögðu í andstöðu við stjórnarskrána, herra forseti. (SJS: Nei.) Það gengur ekki að menn setji svona takmarkanir á eigur manna. (SJS: Hann keypti aldrei ...)

2. gr. gerir ráð fyrir því að það sé bannað að breyta sparisjóðum í hlutafélög. Einmitt það sem sparisjóðirnir vildu. (Gripið fram í: Ekki allir.) Það sem sparisjóðirnir höfðu frumkvæði að að koma í gegn af því að þeir sáu ákveðna hættu steðja að sparisjóðunum. Það getur vel verið að hv. þingmenn viti betur en mennirnir sem reka sparisjóðina hvað þeim er fyrir bestu til þess að standast þá hörðu samkeppni sem þeir standa frammi fyrir á næstunni, til þess að veita sífellt meiri og meiri upplýsingar, til þess að veita sífellt stærri og stærri lán. Ég held að það sé ekki. Ég held að sparisjóðirnir verði að breytast ef ekki á illa að fara fyrir þeim, nákvæmlega eins og fór illa fyrir mörgum kaupfélögum. Og það er ekki rétt sem segir að raunávöxtun stofnfjárbréfa hafi í reynd verið tryggð. Hún er ekki tryggð. Hún er ekki tryggð nema rekstur sparisjóðsins gangi og margir stofnfjáreigendur hafa tapað stofnfé sínu. Ég nefni Sparisjóð Ólafsfjarðar sem dæmi.

En það sem ég benti á á sínum tíma er þetta fé sem menn eru að mynda sem enginn á eins og dæmið með Brunabótafélagið sýnir. Þetta á að vera eitthvað göfugt fé og þess vegna er heimilt að taka það úr umferð, taka það frá stofnfjáreigendum sem eru þeir einu sem lögðu fram pening í sparisjóðina og menn samþykktu að það ætti að stofna þarna sjóð sem enginn ætti og þá kemur að því hver ræður yfir þeim sjóði. Það sem menn eru hérna að verja er það fé sem t.d. í SPRON er notað sem afl í Kaupþingi. SPRON átti mjög stóran hlut í Kaupþingi þar til fyrir mjög stuttu og þar fengu sparisjóðsmenn völd til þess að fara með hlutafé og fyrirtæki um allan heim. Þetta var því spurning um mjög stóran og mikinn valdastrúktúr sem ég efast um að hv. þingmenn geri sér fyllilega grein fyrir. Til dæmis eitt af því sem Kaupþing hefur verið að gera er að kaupa með óvinveittri yfirtöku sænskan banka á nákvæmlega sama tíma og þeir voru hérna með helgisvip að tala um göfugt fé sem ekki mætti yfirtaka á Íslandi með fjandsamlegri eða óvinveittri yfirtöku. Hún er reyndar ekki óvinveitt neinum nema stjórn sparisjóðsins því að það var gert ráð fyrir því að meiri hluti stofnfjáreigenda mundi samþykkja það.

Kaupþing er í hörðum rekstri, góðum rekstri, mikilli áhættu og afskaplega langt frá þeirri hugljómun um litla sæta sparisjóðinn í heimabyggðinni, kominn út um víðan völl innan um hákarla heimsins. Svo hafa verið miklar breytingar bara síðustu daga í þessum litla sæta heimabyggðarsparisjóði því að þar hafa orðið miklar sviptingar. Þeir keyptu heilan banka um daginn og seldu hlutabréfin í Kaupþingi. Þeir keyptu Frjálsa fjárfestingarbankann sem Kaupþing hafði keypt skömmu áður og strípað, tekið úr honum Frjálsa lífeyrissjóðinn og annað góðgæti og svo var restin seld til SPRON á 3,8 milljarða, herra forseti, sem er meira en eigið fé SPRON. Þetta virðist stjórn sparisjóðsins geta gert, keypt eitthvert fyrirtæki sem ekkert verðmat er til á, það er ekki á markaði og það veit enginn hvort þetta verð er rétt. Af hverju voru ekki borgaðir 4 milljarðar? Af hverju ekki 3,6 eða 3 milljarðar? Eigið fé þessa fyrirtækis eru 2,4 milljarðar sem þeir keyptu á 3,8. Og það vill svo til að sami maðurinn er sparisjóðsstjóri í SPRON og er stjórnarformaður í Kaupþingi sem er seljandi, annar er kaupandi og hinn er seljandi. Það getur vel verið að hv. þingmenn vilji hafa þetta svona. Það getur vel verið að þetta sé einmitt það sem hv. flutningsmenn vilja. Það getur vel verið. Þá eiga þeir bara að segja það.

Í umræðum um þetta frv. lagði ég til að í staðinn fyrir að mynda sjóð sem enginn ætti, þá yrði fénu dreift til líknar- og menningarmála. Rauði krossinn fengi ákveðinn hlut, 5% hlutafjár, Óperan fengi ákveðinn hlut o.s.frv. Þetta lagði ég til. Hv. efh.- og viðskn. tók ekkert mið af því. Hún ákvað að búa til sjóð sem enginn ætti en einhver ræður og það eru völdin yfir þeim sjóði, herra forseti, völdin yfir þessum peningum, ekki ávöxtun og ekki peningarnir sjálfir heldur völdin sem skipta máli. Það eru völdin yfir þessari sjálfseignarstofnun í SPRON sem aftur ræður SPRON. SPRON ræður svo stórum hlut í Kaupþingi eða réð og Kaupþing átti svo dótturfyrirtæki um allan heim. Þetta voru völdin sem menn voru að tryggja sér og einhver ætlaði að fá ókeypis en Búnaðarbankinn bauðst til að borga 2 stofnfjáreigendum milljarða fyrir.

Ég lagði líka til að stofnfjáreigendur fengju eitthvað eilítið meira en lögin skömmtuðu þeim sem var smánarlegt, herra forseti. 10% af verðmæti SPRON áttu stofnfjáreigendur að fá sem höfðu einir lagt fram peninga og tekið áhættu af þeim rekstri alla tíð. (Gripið fram í: Þeir tóku enga áhættu.) Vissulega er áhætta í sparisjóði eins og hjá öðrum. Þeir geta gert mistök. Sparisjóðir hafa farið illa, herra forseti. Þeir hafa farið illa á einstökum útlánum. Það þekkjum við í Sparisjóði Ólafsfjarðar og þeir sem ekki þekkja það geta þá bara kafað ofan í þau mál. Enda ef sparisjóðir gætu aldrei farið illa, til hvers þarf þá stofnfjáreigendur? Til hvers þarf þetta fé? Til hvers þarf slíkar ábyrgðir? (Gripið fram í.) En af hverju breytum við þá ekki lögunum og segjum að það þurfi ekki stofnfé? (Gripið fram í: Við gerum það.) Það er bara ekki hægt af því að það þarf einhver að bera ábyrgð.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara yfir þá heiftarlegu umræðu sem spannst í kringum yfirtökutilboð Búnaðarbankans sem var ekkert annað en tilboð og ég hélt að væri bara ein hugmynd til þess að ná fram hag stofnfjáreigenda. Það urðu miklar umræður, það féllu þung orð. Ég gætti mín að hafa ekki sterk orð um þá sem kölluðu mig lögbrjót eða málaliða eða gráðugan o.s.frv. (Gripið fram í.) Ég vil ekki fara inn í það hérna vegna þess að þeir aðilar sem þar um ræðir eru ekki til andsvara. Síðan má fjalla um undarlega stjórnsýslu Fjármálaeftirlitsins sem virðist draga og draga málið þó að því beri samkvæmt lögum að svara innan mánaðar. Og ef það ekki svarar, þá er það sama og samþykki.

Ég vil benda á að þeir aðilar sem höfðu slík stóryrði uppi um mig og mína persónu eru að gera það nákvæmlega sama, þeir yfirbuðu meira að segja og þá var allt hægt og löglegt. Þá var ekki græðgi og þá voru ekki málaliðar o.s.frv. þannig að þetta er búinn að vera mikill darraðardans.

Herra forseti. Eins og heyrist á máli mínu er ég á móti þessu frv. Ég tel að 1. gr. sé hreinlega í andstöðu við stjórnarskrána. Það megi ekki setja þessar kvaðir á eignir manna að framsalið skuli háð samþykki einhvers aðila sem ekki var áður og ég er líka á móti því að ekki megi hlutafjárvæða sparisjóðina. Það er nú eiginlega af velvild gagnvart þeim stofnunum og starfsmönnum þeirra því að ég óttast nákvæmlega eins og sparisjóðamennirnir sjálfir margir hverjir að sparisjóðirnir geti ekki staðist samkeppnina með óbreyttu rekstrarfyrirkomulagi. Þess vegna er ég á móti báðum þessum greinum og þar af leiðandi á móti frv. í heild sinni.