Viðskiptabankar og sparisjóðir

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 15:37:59 (403)

2002-10-09 15:37:59# 128. lþ. 7.4 fundur 8. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (stofnfjárhlutir) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[15:37]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði í upphafi máls míns að stundum væri orðræðan þannig að orðum fylgdi ákveðin meining þess sem sagði þau en sá sem heyrði skildi kannski ekki alveg meininguna. Líklega hefur það gerst hér í þessu andsvari mínu að hv. þm. hefur ekki alveg áttað sig á því hvað ég var að fara. Því skal ég reyna að leggja þessa spurningu fyrir hann á nýjan leik. Við ræddum í síðustu viku um sölu á stórum hlut í Landsbankanum, um sölu á stórum hlut sem gerði það að verkum að fáir aðilar mundu algerlega ráða ferðinni, fengju þeir þau völd sem fylgdu svo stóru eignarhaldi. Þetta var grundvallaratriðið. Ég hélt því fram að þessu eignarhaldi fylgdu völd vegna þess að oft er sagt að fjármagnið hreyfi hlutina úr stað og valdið yfir fjármagninu geri það að verkum að menn hafa völd. Það nákvæmlega sama vorum við að ræða hér, þ.e. völdin yfir þeim sjóðum sem enginn á og hv. þm. hefur miklu meiri áhyggjur af. Ég spyr hv. þm. og ítreka því fyrri spurningu til þess að reyna að fá einhverja skýringu á þessum muni á völdum sem tengjast stórum eignarhluta í Landsbankanum sem á að selja í einu lagi. Ég er algerlega andvígur því vegna þess að því fylgja það mikil völd og mikil áhrif að ég tel mikilvægt að selja þetta í dreifðri eignaraðild. En þá talaði hv. þm. um að þessu fylgdu ekki nokkur einustu völd. Nú hleypur hv. þm. upp og segir eitthvað á þá leið að öll þau miklu völd sem fylgja eignarhaldi yfir SPRON séu hættuleg. Það er bara mikilvægt, virðulegi forseti, til þess að átta sig á umræðunni að menn séu nokkurn veginn sömu skoðunar frá viku til viku.