Málefni aldraðra og húsnæðismál

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 15:52:40 (407)

2002-10-09 15:52:40# 128. lþ. 7.94 fundur 161#B málefni aldraðra og húsnæðismál# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[15:52]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er auðvitað hrein bíræfni af hæstv. félmrh. að koma hér í ræðustól og berja sér á brjóst fyrir að hann ætli að veita lán til íbúða sem enginn getur tekið vegna þess að það eru okurvextir á þessum lánum. Það er ekki hægt að taka þau nema senda reikninginn á láglaunafólk. Þetta er auðvitað einn svartasti bletturinn á þessari ríkisstjórn, hvernig farið hefur verið með leigjendur á þessu kjörtímabili. Ríkisstjórnin skilur eftir sig slóða biðlista og verðsprengingu þar sem hver fermetri í leiguhúsnæði er orðinn 1.000 kr. Það þýðir að leiga tveggja herbergja íbúða er orðin 60--70 þús. kr. á mánuði.

Hvernig eru biðlistarnir, herra forseti? 1.800 einstaklingar og fjölskyldur í Reykjavík eru á biðlista eftir leiguíbúðum. Þar ríkir hreint neyðarástand. 630 námsmenn eru á biðlista. Þar af eru 550 námsmenn af landsbyggðinni. Fjölgun námsmanna á biðlistum milli ára er um 30--40%. 375 öryrkjar eru á biðlistum hjá Öryrkjabandalaginu. Hvorki meira né minna en 800 manns eru á biðlista í Reykjavík og er aukningin um 40%, einungis frá því í janúarmánuði, úr 575 þá í 800 núna. Það er sá slóði sem hæstv. ráðherra dregur í lok kjörtímabilsins, 2.000--3.000 einstaklingar og fjölskyldur á landinu öllu, lægst launaða fólkið í þjóðfélaginu, öryrkjar, aldraðir, einstæðir foreldrar, tekjulitlar barnafjölskyldur og námsmenn.

Ríkisstjórnin lætur vaxtaokur á láglaunafólki viðgangast. Vextirnir hafa meira en fjórfaldast á lánskjörum til leiguíbúðanna og þeir eru að sliga þetta fólk. Það er ríkisstjórnin sem þessa dagana sendir reikninginn á láglaunafjölskyldur vegna þess að á borði félagsmálaráðs Reykjavíkur liggur tillaga frá Félagsbústöðum um að hækka leiguna um 12%, ekki bara á nýjum íbúðum heldur á öllum leiguíbúðum hjá Reykjavíkurborg. Skatturinn sem ríkisstjórnin hunskaðist loks til að fella af húsaleigubótum er með þessu í einu vetfangi kippt úr vasa þessa fólks til að greiða fyrir vaxtaokur ríkisstjórnarinnar á leiguíbúðum.