Málefni aldraðra og húsnæðismál

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 15:57:29 (409)

2002-10-09 15:57:29# 128. lþ. 7.94 fundur 161#B málefni aldraðra og húsnæðismál# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[15:57]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Eru aldraðir mikið vandamál í þessu þjóðfélagi, þjóðfélagi lífsgæðakapphlaupsins þar sem þeim fjölgar sem verða milljarðamæringar og meiri hlutinn hefur það ágætt? Eldra fólk hefur sjaldan verið vandamál í mínum augum. Við ættum frekar að gleðjast með öldruðum. Þeir eru oftast lífsglatt fólk með mikla lífsreynslu. Það er ánægjulegt að fólkið í landinu skuli lifa lengur og þó einkum að mjög margir af þeim sem við köllum aldraða skuli geta notið lífsins, haldið góðri heilsu og búið sem lengst við þær aðstæður sem þeir kjósa sér sjálfir.

Við vitum að öldruðum fjölgar um 2% á ári og þjóðin verður smám saman eldri að meðaltali en hún er í dag. Það fólk sem nú er aldrað vann þjóð sinni vel og færði Ísland úr fátækt til bjargálna. Vissulega er enn til fátækt fólk á Íslandi og misskipting þeirra ofurríku, sem gjafir fengu, og þeirra efnaminni fer vaxandi. Þeim mun meiri ástæða er til að bæta velferðarþjónustuna og tryggja með félagslegum úrræðum stjórnvalda og Alþingis því fólki sem þarf t.d. sérhúsnæði fyrir aldraða eða dvalarheimili ef okkar eldri borgarar kjósa og þurfa þess með að þeirra eigin vali.

Ef þörf er fyrir öldrunarþjónustu heima, á dvalarheimilum eða á heilsugæslu eða sjúkrahúsum, þá er rétt að leggja áherslu á að þörfin fyrir öldrunar- og heilbrigðisþjónustu hverfur ekki við það að ríkið dragi úr þjónustu eða veiti hana alls ekki. Ef eitthvað er eru meiri líkur á að ef ríkið frestar að veita öldrunar- og heilbrigðisþjónustu þá sé farið úr öskunni í eldinn. Telja menn að vandinn hverfi? Auðvitað ekki. Með því að fresta aðgerðum vex vandinn og verður dýrari. Það á bæði við í heilbrigðis- og öldrunarþjónustu. Vandamálið ,,sjúkur einstaklingur`` ef svo hagar til verður áfram til staðar.