Málefni aldraðra og húsnæðismál

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 15:59:47 (410)

2002-10-09 15:59:47# 128. lþ. 7.94 fundur 161#B málefni aldraðra og húsnæðismál# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[15:59]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Á undanförnum árum hafa kjör aldraðra margoft komið með einum eða öðrum hætti inn á borð þingsins. Svo mun verða áfram, þ.e. þar til kjör þeirra eru færð í það horf að mannsæmandi geti talist. Hlutfall aldraðra eykst stöðugt með hækkandi meðalaldri. Fleiri verða aldraðir og við góða heilsu og geta átt góða lífdaga ef lífeyrisgreiðslur verða nægjanlegar til framfærslu og önnur velferðarþjónusta verður tryggð.

Eitt af mörgu sem þarf að vinna að hið allra fyrsta er að koma á sveigjanlegum starfsaldri, hækka grunnlífeyri og hækka skattleysismörk. Breyta þarf skatthlutfalli af lífeyrisgreiðslum, lækka fasteignaskatta hjá lífeyrisþegum, auka heimaþjónustu, bæði frá félagsþjónustu og heilsugæslu og fjölga þarf valkostum fyrir búsetu á efri árum. Velferðarþjónustan á að miða við að fólk geti sem lengst búið við öryggi á eigin heimili. Þannig viljum við búa þegar við verðum komin á efri ár og því eigum við að tryggja samsvarandi þjónustu fyrir núverandi lífeyrisþega. Ef það er ekki hægt í dag, þá verður það ekki hægt þegar við verðum eldri og hópurinn hlutfallslega stærri.

Þar sem bæði skattleysismörk og skatthlutfall staðgreiðslu hafa breyst á undanförnum árum getur verið erfitt að átta sig á þróun skattbyrði tekna. Þó er ljóst að skattleysismörk hafa lækkað mikið að raungildi síðustu 12 árin þannig að greiddir eru skattar af mun lægri tekjum að raungildi en áður. Lífeyrisgreiðslur duga því skammt á hinum frjálsa leigumarkaði í dag. Því búa allt of margir aldraðir við kröpp kjör og skert lífsgæði.

Félagslega húsnæðiskerfið verður að efla og lækka aftur vexti af lánum til þeirra sem reisa eða eiga og reka félagslegt leiguhúsnæði eða leggja fram umtalsverða stofnstyrki í samræmi við tillögu nefndar sem starfar á vegum félmrn. svo félagslegar íbúðir verði í raun valkostir fyrir tekjulágt fólk.