Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 10:35:18 (417)

2002-10-10 10:35:18# 128. lþ. 8.91 fundur 164#B alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn# (aths. um störf þingsins), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[10:35]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Í dag er alþjóðageðheilbrigðisdagurinn haldinn í sjötta sinn, nú undir yfirskriftinni: ,,Áhrif áfalla og ofbeldis á börn og unglinga``. Því ber að fagna að umræður um geðheilbrigðismál eru nú miklu opnari en áður var og það er almennt ekki talin skömm að því að leita sér meðferðar ef veikindi ber að höndum.

Ég hef, eins og komið hefur fram, lagt áherslu á eflingu þjónustu við geðsjúka, ekki hvað síst börn og unglinga, en öflugasta þjónustan við þennan hóp er á barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Þar komu 1.704 einstaklingar á göngudeild frá janúar til ágúst 2001 en á sama tímabili á þessu ári hafa 1.746 börn og unglingar fengið þjónustu á göngudeild. Sömu sögu er að segja af dagdeildarþjónustunni. Þar fjölgaði þjónustuþegum úr 789 í janúar til ágúst 2001 en 1.143 á sama tímabili í ár. Þessi árangur hefur náðst með endurskipulagningu starfseminnar.

Þó margt hafi þannig áunnist í málefnum barna og unglinga eru verkefnin enn næg. Í heilbrigðisráðuneytinu hafa verið til skoðunar hugmyndir um frekari uppbyggingu á Dalbrautinni, auk þess að efla göngudeildarúrræði, framhaldsmeðferð og eftirfylgd. Þá vil ég einnig vinna að eflingu slíkrar þjónustu á landsbyggðinni. Þá má ekki gleyma því veigamikla hlutverki sem skólahjúkrunarfræðingar gegna til að fyrirbyggja á þessu sviði.

Á fjárlögum þessa árs var sett inn 40 millj. kr. viðbótarfjárveiting til geðheilbrigðismála. Því fé var varið til eflingar þjónustu innan sjúkrahúsa en einnig fór um helmingur fjárveitingarinnar til heilsugæslunnar til að auka fyrirbyggjandi aðgerðir.

Undanfarnar vikur hefur átt sér stað mikil umræða um geðheilbrigðismál, einkum vanda þeirra sem veikastir eru. Ég vil vara við of miklum alhæfingum í umræðum um stöðu geðsjúkra. Alhæfingar hafa tilhneigingu til að auka fordóma. En ég tel einmitt að mikill árangur hafi náðst í því að draga úr fordómum gagnvart geðsjúkum.