Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 10:41:58 (420)

2002-10-10 10:41:58# 128. lþ. 8.91 fundur 164#B alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn# (aths. um störf þingsins), GAK
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[10:41]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. 10. október er alþjóðlegur geðheilbrigðisdagur og í ár ber hann yfirskriftina: ,,Áhrif áfalla og ofbeldis á börn og unglinga``. Aukinn hraði og firring í nútímasamfélagi virðist geta valdið því að röskun verði á geðheilbrigði fólks í vestrænu samfélagi og geðsjúkdómar taki vaxandi toll. Því er brýnt að huga sérstaklega að börnum og unglingum til að koma í veg fyrir erfiðleika hjá þeim síðar á ævinni.

Nýleg dæmi sanna að við höfum ekki brugðist sem skyldi við vanda geðsjúkra. Úrræðaleysi innan heilbrigðiskerfisins getur haft alvarlegar afleiðingar. Þeir sem þjást af geðrænum sjúkdómum eru oftast nær langveikir af þeim sökum og niðurskurður í heilbrigðiskerfi bitnar því oft mjög illa á þessum hópi sem þarf að njóta öruggrar þjónustu til lengri tíma.

Nýlega birtist skýrsla um sjálfsvíg sem sýnir að vandi ungmenna er mjög alvarlegur þótt ekki verði hann rakinn til geðheilsu einnar. Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn minnir okkur á að huga ber að hagsmunum geðsjúklinga og aðstandenda þeirra. Þar berum við öll ábyrgð en stjórnvöld ráða mestu um þá þjónustu sem veitt er á hverjum tíma.