Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 10:45:49 (422)

2002-10-10 10:45:49# 128. lþ. 8.91 fundur 164#B alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn# (aths. um störf þingsins), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[10:45]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Í skýrslu sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gaf út í apríl á þessu ári kemur fram að geðrænir sjúkdómar verði önnur algengasta orsök langvarandi fötlunar og dauða í heiminum árið 2020. Á Íslandi gætu þessir sjúkdómar komið næst á eftir hjartasjúkdómum. Við vitum að fjórði hver Íslendingur mun einhvern tíma á ævinni eiga við geðræn vandamál að stríða og ef við færum þá vitneskju yfir á þingheim þýðir það að 16 hv. þm. munu einhvern tíma á ævinni eiga við geðræn vandamál að stríða. (SvH: Er það ekki hærra?) (Gripið fram í: Eða lægra?) Það gæti vel verið, hv. þm. Sverrir Hermannsson.

Við vitum að fangar eru í áhættuhópi, við vitum að fíklar eru í sérstökum áhættuhópi vegna geðsjúkdóma. Við vitum að öflug fræðsla um geðsjúkdóma stuðlar að minnkandi fordómum í samfélaginu. Við vitum að öflugar forvarnir koma ungu fólki best, því þegar fólk verður geðsjúkt ungt þá getur það fatlast fyrir lífstíð og við vitum að öflugur stuðningur við aðstandendur þeirra sem geðsjúkir eru skiptir mjög miklu máli fyrir velferð þeirra í samfélaginu. Allt þetta liggur fyrir, herra forseti. Það sem þarf hins vegar að gera er að taka þá þekkingu, þessar staðreyndir, eða vitneskju upp og færa hana frá orðinu á borðið og gera framkvæmdaáætlanir sem hafa fjármagn sem duga til þess að fást við þennan geigvænlega vanda í heilbrigðiskerfinu og í raun og veru þann vanda sem steðjar að nútímasamfélögum í formi geðsjúkdóma.