Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 10:47:46 (423)

2002-10-10 10:47:46# 128. lþ. 8.91 fundur 164#B alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[10:47]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Mig langar til að þakka fyrir góða og yfirvegaða umræðu um þetta alvarlega og mikilvæga mál. Ég vil þakka ráðherra fyrir upplýsingarnar um þær mikilvægu úrbætur sem eru í farvatninu hjá honum í málaflokknum en við skulum hafa það hugfast að sinna þarf fleirum en sjúklingunum sjálfum. Aðstandendur geðsjúkra eru oft mjög afskiptir og þeir mæta úrræðaleysi í samfélaginu. Félagsleg einangrun geðsjúkra er mikil og þess vegna þarf að sinna betur félagslega þættinum eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir kom að áðan. Við skulum líka muna það að fjárhagsleg staða og kjör þessa hóps eru varla mannsæmandi.

Því miður eru oft fréttir af því að ótæpilega sé ávísað lyfjum á þennan hóp og það þarf auðvitað að taka á þeim þætti. Síðan er ljóst að endurskoða þarf sjálfræðislögin. En aðalatriðið er að mikilvægt er að vinna ötullega áfram að því að sem flestir fái að njóta geðheilbrigðis í framtíðinni.