Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 10:49:08 (424)

2002-10-10 10:49:08# 128. lþ. 8.91 fundur 164#B alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn# (aths. um störf þingsins), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[10:49]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda og þátttakendum í umræðunni málefnalega og yfirvegaða umræðu um þetta alvarlega mál sem hér er til umfjöllunar. Ég vil endurtaka að það er vel við hæfi að beina sjónum að unga fólkinu á þessum degi því að nútímasamfélag hefur í för með sér mikið áreiti á ungt fólk.

Hér hefur verið rætt um hlutverk frjálsra félagasamtaka. Ég hef verið þeirrar skoðunar að við eigum ekki að setja ábyrgðina yfir á frjáls félagasamtök en okkur ber skylda til að efla frjáls félagasamtök í starfi og vinna með þeim. Ég hef reynt að rækta samstarf við félagasamtök eins og Geðhjálp og ég tel að nýta beri reynslu þeirra og þekkingu til þess að starfa að þessum málum.

Hér hefur verið drepið á alvarleg mál eins og ofvirkni. Það er rétt að það er efst á baugi að takist að efla Barna- og unglingageðdeildina til að sinna þeim hópi. Þarna er um alvarleg vandamál að ræða. Einnig hefur komið upp umræða um sjálfsvíg en á síðasta ári var landlæknisembættið einmitt styrkt til þess að vinna að þeim málum með ráðningu starfsmanns. Það gerðist í kjölfar skýrslu sem út var gefin um þessi mál.

Varðandi þau alvarlegu mál sem upp hafa komið hef ég undanfarið rætt við fjölda sérfræðinga og leikmanna um stöðu mála og þær leiðir sem færar eru til að auka þjónustu við alvarlega geðsjúka einstaklinga. Efla þyrfti þjónustu í fangelsum og koma upp sérstakri lokaðri meðferðardeild og síðan að efla þjónustu við þá sem eru úti í samfélaginu með sérhæfðum starfskröftum til sinna þeim hlutum.