Endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 10:51:28 (425)

2002-10-10 10:51:28# 128. lþ. 8.95 fundur 168#B endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[10:51]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í stefnuræðu sinni sem flutt var hér miðvikudagskvöldið fyrir rúmri viku upplýsti hæstv. forsrh. að hæstv. heilbrrh. hefði ákveðið að setja af stað heildarendurskoðun á lögum um heilbrigðisþjónustu m.a. með hliðsjón af fjórum nýlegum skýrslum Ríkisendurskoðunar. Nú síðustu daga hefur hér á þingi, í blaðagreinum og víðar í þjóðfélaginu farið fram mikil umræða um stöðu heilbrigðisþjónustunnar og ekki af tilefnislausu. Um er að ræða gríðarlega mikilvægan málaflokk þar sem við margvíslegan vanda, fjárhagslegan og skipulagslegan, er að glíma. Mér þykir því rétt, herra forseti, að koma því á framfæri að hæstv. heilbrrh. eða ríkisstjórn upplýsi Alþingi um það hvernig ætlunin er að standa að slíkri endurskoðun. Það er að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægt mál og mikilvægt að það takist vel. Mikilvægt er að þeirri endurskoðun verði hraðað eins og kostur er án þess þó að það verði á kostnað verksins því að hér þarf auðvitað að vanda mjög vel til.

Ég vil sérstaklega spyrja hæstv. heilbrrh. hvort ætlunin sé að leita til stjórnarandstöðunnar um fulltrúa í þá nefnd eða starfshóp eða hvað það verður nú kallað sem væntanlega hefur þetta mikilvæga verkefni með höndum. Að mörgu leyti virðist einboðið að þar yrði um að ræða nefnd eða starfshóp sem samanstæði af fagaðilum og stjórnmálamönnum því að öllum má ljóst vera að eitt af mikilvægustu markmiðunum í slíku starfi er að reyna að tryggja eins mikla þverpólitíska samstöðu um þennan gríðarlega mikilvæga málaflokk eins og kostur er. Úr því að svo vel ber í veiði að hæstv. heilbrrh. er hér, þá þætti mér vænt um ef hann treysti sér til að svara þessum spurningum nú eða þá síðar ef það hentar betur.