Rekstur Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 10:59:40 (429)

2002-10-10 10:59:40# 128. lþ. 8.3 fundur 9. mál: #A rekstur Ríkisútvarpsins# þál., Flm. SvH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[10:59]

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég á þáltill. á þskj. 9. Hún er endurflutt, var fyrst flutt fyrir tveimur árum en náði þá ekki umræðu á hinu háa Alþingi. Þann 30. október á liðnu ári varð hins vegar allrækileg og ítarleg umræða um tillöguna og get ég þess vegna nú haft þeim mun skemmri signingar yfir henni. Það er allt að finna í þeirri umræðu sem hv. menntmn. kann að gagni að koma við umfjöllun um málið. Ég tíunda röksemdir fyrir málinu og útfærslu þess í einum 12 liðum í greinargerð og vísa til hennar. Ég ætla þó aðeins að leyfa mér að lesa eftirfarandi upp úr greinargerðinni, með leyfi forseta:

,,Uppi eru hugmyndir um að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi og þeim röksemdum beitt að stofnunin þurfi að geta brugðist skjótt við í samkeppni og verið fljót til ákvarðana. Hlutafélagsvæðing Ríkisútvarpsins er óþörf til að gefa stofnuninni slíkt svigrúm. Með lögum um stofnunina má gefa henni allt það umboð sem hún kann að þurfa á að halda til að vera jafnviðbragðsfljót til ákvarðana og hlutafélag getur verið. Breyting stofnunarinnar í hlutafélag gefur hins vegar til kynna að til greina kæmi að selja það hlutafélag. Minnsta vísbending í þá átt er að mati flutningsmanns beinlínis hættuleg fyrir íslenska menningu, fyrir öryggishagsmuni þjóðarinnar og ekki hvað síst fyrir fjölmiðlaveröld landsins með tilliti til ríkjandi samþjöppunar í þeim geira og þess þroska lýðræðisins í landinu sem vænta má næstu ár og áratugi. Sú lýðræðisþróun yrði bæði heft og njörvuð niður ef frjálst Ríkisútvarp yrði lagt af. Ríkisútvarpið á þess vegna að halda áfram að vera til og tilvera þess er allri okkar samfélagsgerð og samfélagsþróun mikilvæg.``

Frá því að umræða okkar fór fram um þetta mál í fyrrahaust hefur það nýtt orðið í málinu að allítarleg könnun var gerð á afstöðu almennings til Ríkisútvarpsins og kom í ljós að það er mjög mikill meiri hluti þjóðarinnar, 2/3, sem kýs að Ríkisútvarpið verði rekið áfram í óbreyttri mynd. Í öllum atriðum má segja að niðurstaða könnunarinnar, Gallup-könnunar, hafi verið samferða og samhljóma því sem hér er einkum lagt til í þáltill. minni.

Ýmsir menn hafa yppt öxlum þegar sérstaklega hefur verið rætt um að tunga okkar, íslenskan, væri í allmikilli hættu stödd. Að henni er vissulega sótt, harkalega, og þá sér í lagi af enska sjóræningjamálinu. Það er trúa mína að úr því verði skorið á næstu missirum og árum hvort íslenskan lifir --- ella deyr hún, hvorki meira né minna. Menn geta fylgst með því, og gera það vafalaust, hvernig málið afbakast. Ungdómurinn á t.d. erfitt með að fóta sig á því máli sem við viljum viðhalda. Enginn mun vernda þennan arf okkar sem bókmenntirnar eru ef við gerum það ekki sjálf enda eru þær glataðar um leið og tungan afbakast eða glatast.

Mér er það ekkert launungarmál að áhugi minn á Ríkisútvarpinu og sjónvarpi þess er frá upphafi vegna áhyggju minnar af tungu okkar og áhuga míns á málinu. Það er enginn vafi á því að útvarp og sjónvarp eru nú til dags tvímælalaust sterkustu miðlarnir og við eigum þegar í stað að taka þá í þjónustu almennings í baráttu okkar fyrir menningu okkar, raunar tilverurétti þar sem tungan er. Allt bjartsýnistal um að tungan muni lifa, á hverju sem gengur, er óráðshjal og á engan rétt á sér.

Ég sé ekki ástæðu til þess að tefja tímann lengur og mæla frekar fyrir þessari tilögu. Ég hef áður sagt að allt sem ég tel að koma þurfi fram sé í þingskjölum að finna. Ég beini því eindregið til þeirrar nefndar sem fær þetta mál væntanlega til meðferðar að taka til sérstakrar athugunar hvort ekki sé hægt að fallast á nefndarskipan í málinu sem hér er einkum gerð tillaga um. Ráðandi þingmeirihluti hefur fullt vald á málinu eftir sem áður en þar mundi verða grundvöllur til ítarlegrar umræðu um þær forsendur sem hér eru gefnar og aðrar þær sem fram hafa komið og komu fram við umræðuna í fyrra, en lífs er hin mesta nauðsyn á að menn ræði ítarlega og komi sér ásamt um aðferðir til að nýta þessa fjölmiðla, sjónvarp og útvarp, í þágu tungunnar. Svo sterkt er sjónvarpið að það er sannfæring mín að ef bókmenntir okkar, nýjar og gamlar, yrðu þar matreiddar væri hægt að teyma ungdóminn að bókmenntunum, hann mundi fletta upp í bókunum og lesa þær sér til sáluhjálpar og eflingar tungunni.

Herra forseti. Ég legg svo til að tillögunni verði vísað til síðari umræðu og hv. menntmn.