Rekstur Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 11:07:14 (430)

2002-10-10 11:07:14# 128. lþ. 8.3 fundur 9. mál: #A rekstur Ríkisútvarpsins# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[11:07]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þessi till. til þál. gengur út frá því að skipuð verði nefnd með fulltrúum allra þingflokka til að semja frv. um breyttan rekstur Ríkisútvarpsins.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lýsir stuðningi við þessa þáltill. Ekki svo að skilja að við teljum nauðsynlegt að gera grundvallarbreytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins, síður en svo, en það er mikilvægt að þessi lög séu í stöðugri endurskoðun og það kann að vera sitthvað í rekstri Ríkisútvarpsins og skipulagsformi sem er bundið í lög sem nauðsynlegt er að taka til endurskoðunar. Og það er staðreynd að ríkisstjórnin hefur á prjónunum lagasmíð um hugsanlega breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins og það er eðlilegt --- þar tökum við undir með hv. flm. tillögunnar, Sverri Hermannssyni --- að fulltrúar allra flokka komi að því starfi. Í þeim skilningi lýsum við stuðningi við þáltill. og þann grunntón sem þar er að finna.

Þar segir m.a. í greinargerð, með leyfi forseta:

,,Markaðslausnir geta ekki átt við starfsemi af þessu tagi. Hún er eðli málsins samkvæmt menningar- og fræðsluviðleitni þar sem sóknin eftir arðsemi verður að víkja fyrir mikilvægari markmiðum.`` --- Ég held að almennt séð séu Íslendingar á þessu máli. Ég vek athygli á því að nýlega voru stofnuð samtök, Velunnarar Ríkisútvarpsins, sem hyggjast starfa í nákvæmlega þeim anda sem hér er lýst.

Ég ætla í örfáum orðum að víkja að ýmsum efnisþáttum sem eru tilgreindir í þáltill. Þar er talað um að Ríkisútvarpið verði áfram ,,sjálfstæð og óháð stofnun í þjóðareign``. --- Undir þetta vil ég taka. --- ,,Horfið verði frá hugmyndum um sölu á Rás 2 frá Ríkisútvarpinu vegna þarfa landshlutaútvarps ...`` --- Undir þetta tek ég einnig. Þá segir: ,,Almannahagsmunir, ef vá ber að höndum, kalla eftir að Ríkisútvarpið, með sitt víðtæka dreifingarnet, sé ávallt tiltækt.`` --- Undir þetta tek ég. Þá segir: ,,Ríkisútvarpið verði fjármagnað að fullu á fjárlögum ár hvert, t.d. innan ramma áætlunar eða þjónustusamnings til 3--5 ára í senn. Útvarpið hætti að flytja viðskiptaauglýsingar í samkeppni við aðra fjölmiðla, en flytji áfram tilkynningar frá opinberum aðilum, félagasamtökum og öðrum sambærilegum aðilum.`` --- Ég hef ákveðnar efasemdir um þetta þó að mér finnist sjálfsagt að taka það til skoðunar. Það kann vel að vera að það form sem við búum við nú, afnotagjöldin, sé að úreldast. Tæknin er að breytast, fólk getur fylgst með útvarpi og sjónvarpi á annan hátt en það gat fyrr á tíð. Þannig má fylgjast með sjónvarpsútsendingum í tölvu, svo dæmi sé tekið. Þau sjónarmið hafa heyrst að við eigum að breyta innheimtufyrirkomulaginu og aðrir vilja fara þá leið sem hér er stungið upp á, að Ríkisútvarpið verði fjármagnað að fullu á fjárlögum ríkisins. Þetta hefur verið reynt, t.d. í Hollandi. Þar var farið út á þessa braut en reynslan var mjög slæm því að tekjur hins opinbera fjölmiðils í Hollandi rýrnuðu mjög við breytinguna. Ég held að tekjur NOS, sem þessi fjölmiðill mun heita, hafi minnkað strax á fyrsta árinu eftir þessar breytingar. Það fyrirkomulag sem við búum við og er sambærilegt við það sem tíðkast á Norðurlöndunum, í Bretlandi og víðar, hefur þegar allt kemur til alls reynst best til þess fallið að tryggja það sem tilgreint var í fyrsta áherslulið þáltill., að halda Ríkisútvarpinu sem sjálfstæðri og óháðri stofnun, óháðri þá væntanlega einnig pólitískum áhrifum. Þarna hef ég því ákveðnar efasemdir þó að okkur finnist sjálfsagt að skoða aðrar leiðir til innheimtu, aðrar viðmiðanir, hugsanlega fasteignaviðmiðun eða eitthvað af því tagi, og þetta væri nokkuð sem nefndin tæki án efa til skoðunar.

Þá er lögð áhersla á að ,,Ríkisútvarpið verði virkur fræðslumiðill, og bregðist þannig við vaxandi þörf fyrir símenntun og almenningsfræðslu, og verði lind og farvegur fyrir vakandi og frjóa samfélagsumræðu``.

Þetta er nokkuð sem ber að leggja áherslu á og hefur komið fram í umræðu Velunnara Ríkisútvarpsins, bæði á stofnfundi samtakanna ekki alls fyrir löngu og á málþingum sem efnt hefur verið til á liðnum mánuðum, að við þurfum einmitt að efla Ríkisútvarpið. Þessi barátta er ekki aðeins um að standa vörð um Ríkisútvarpið heldur þarf að efla það sem fræðslumiðil, upplýsingamiðil og fréttamiðil. Og ég held að mörgum finnist ekki vanþörf á að efla Ríkisútvarpið, t.d. sem fréttamiðil, óháðan fréttamiðil sem hleypir öllum skoðunum og straumum að.

Þá er lögð áhersla á að ,,Ríkisútvarpið gæti að fjölbreytni í dagskrárgerð þannig að það, að öllu samanlögðu, mæti þörfum sem flestra landsmanna, m.a. með því að mismunandi rásir þjóni mismunandi hópum``.

Þá er talað um að ,,dagskrárstefnan verði laus undan öllum markaðsáhrifum``, og það tengist öðrum lið sem ég vék að áðan, að Ríkisútvarpið mundi ekki flytja viðskiptaauglýsingar. Ég hef ákveðnar efasemdir um þetta. Þetta er mjög drjúgur hluti af tekjum Ríkisútvarpsins og ef það yrði af þeim yrði væntanlega að hækka afnotagjöldin eða framlög frá ríkinu. Afnotagjöldin eru núna 2.250 kr. á mánuði, svipað og gerist hjá dagblöðunum, Morgunblaðið tekur 2.100 kr. á mánuði, Dagblaðið 2.200, þetta er á svipuðu róli. En á hitt er að líta að afnotagjöld Ríkisútvarpsins hafa á síðustu 12 árum hækkað um aðeins 17% en afnotagjöld annarra fjölmiðla eða áskriftargjöld þeirra um 58--62% á sama tímabili. Ef við létum viðskiptaauglýsingar víkja yrði þessi stuðningur að aukast að sama skapi. Og það er staðreynd að jafnvel þótt ágætlega hafi verið að Ríkisútvarpinu búið á marga lund er það í svelti, það þarf á miklum fjármunum að halda, t.d. til endurnýjunar tækjakosts. Þar þyrftu að koma til 100 millj. á næstu mánuðum eftir því sem mér er tjáð.

Leyfi fékkst til að hækka afnotagjöldin 1. janúar sl. um 7%. Það var síðan rekið til baka í verðhjöðnunarstríðinu en á móti komu 140 millj. á fjáraukalögum sem án efa vega þarna eitthvað upp á móti. Það er þó ekki hækkun til frambúðar þannig að ég er með ákveðnar efasemdir um þetta.

Sömuleiðis finnst mér að taka þurfi til gagngerðrar umræðu spurninguna um hlutverk útvarpsráðs, skipan í það og ráðningu útvarpsstjóra. Ég er ekki endilega viss um að ég sé reiðubúinn að skrifa upp á allt það sem er að finna í þáltill. en það væri mjög gagnlegt að fá þessa vinnu af stað og að skipuð yrði þverpólitísk nefnd í þeim anda sem hér er lagt til.