Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 11:41:36 (434)

2002-10-10 11:41:36# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[11:41]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessarar þáltill., Jóhanna Sigurðardóttir, kvaðst vonast til að þessari tillögu yrði vel tekið. Af hálfu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er henni mjög vel tekið. Við munum styðja framgang þessa máls sem gengur út á að skipuð verði nefnd sem fari í saumana á skattlagningu lágra tekna og að í nefnd þessari eigi sæti fulltrúar mismunandi pólitískra afla og aðila vinnumarkaðar og samtaka aldraðra og öryrkja.

Það er staðreynd að á síðustu árum hefur stefnt í óefni hvað þetta snertir. Skattleysismörkin hafa ekki fylgt almennri launaþróun þegar til lengri tíma er litið. Nú er í fyrsta sinn í langan tíma farið að skattleggja þá sem allra minnstu tekjurnar hafa í þjóðfélaginu. Hverjir eru það? Það eru atvinnulausir, svo fyrst sé nefndur sá hópur sem hefur minnstar tekjurnar. Atvinnuleysisbæturnar eru nú 73.765 kr. á mánuði og fyrir hvert barn sem atvinnulaus einstaklingur hefur á framfæri eru greiddar 2.947 kr. Atvinnulaus einstaklingur með eitt barn á framfæri fær í tekjur frá hinu opinbera 76.712 kr. Þar sem skattleysismörkin eru núna í 70.279 kr., þá yrði þessi einstaklingur að greiða 2.380 kr. í skatt.

Ef við síðan lítum á öryrkja, einhleypan aðila sem hefur grunnlífeyri, tekjutryggingu, tekjutryggingarauka og heimilisuppbót þá er hann samtals með 87.015 kr. á mánuði hverjum. Þetta er sú allra hæsta greiðsla sem öryrki getur haft. Þá fær hann að fullu greitt samkvæmt þeim liðum sem ég nefndi og hann fær þessa upphæð, 87.015 kr. Af þessu greiðir hann 6.192 kr. í skatt. Þannig er villandi að tala um að hann hafi þessa fjárhæð á milli handa. Við þurfum að draga þetta frá og þá hann er kominn niður undir 80 þús. kr.

Það þarf einfaldlega að fara í saumana á þessu, endurskoða þær skattbyrðar sem lagðar eru á tekjulægsta fólkið í samfélaginu. Við tökum undir það að skipuð verði nefnd sem hafi það verkefni með höndum og munum styðja framgang þessa máls.