Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 12:02:36 (445)

2002-10-10 12:02:36# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[12:02]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Aftur er reynt að þvinga mig undir flokksbönd Sjálfstfl. Menn hafa sérstaka unun af því að binda mig á klafa Sjálfstfl. Ég er talsmaður sjálfs mín og ég er kannski fyrst og fremst talsmaður skattgreiðenda í landinu, skattgreiðenda sem er refsað fyrir það að sýna frumkvæði og dugnað, skattgreiðenda sem er refsað fyrir það að afla sér menntunar og tekna. Ég er fulltrúi þeirra.

Hvort ég sé stoltur af því að skattar séu á lágtekjufólki? Ég er ekkert frekar stoltur af því heldur en af því að skattpína fjölskylduna sem ég nefndi áðan. Ég vil að skattar séu lækkaðir umtalsvert á öllum. (Gripið fram í: Á öllum?) Já, hjá öllum. Ég vil að fólkið geti unnið frjálst, fólkið sem vinnur t.d. í frystihúsunum og bjargar verðmætum, að því sé ekki refsað með allt of háum sköttum og skerðingum á bótum aftur og aftur.