Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 12:08:10 (450)

2002-10-10 12:08:10# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[12:08]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil sanngirni og réttlæti í skattlagningunni. Það er engin sanngirni eða réttlæti í skattlagningunni hjá þessari ríkisstjórn. Þvert á móti hefur skattbyrði á fólk með meðaltekjur og lágtekjur vaxið --- vaxið gríðarlega til að greiða fyrir skattaívilnanir sem þessi hv. þm. hefur staðið fyrir til fjármagnseigenda og stórfyrirtækja. Og er það að skila peningum í ríkissjóð að fyrirtæki greiða á næsta ári 2 milljörðum minna til ríkisins en þau gerðu í fyrra? Er það sanngjörn og réttlát skattlagning að á sama tíma borga einstaklingar 5 milljörðum meira í ríkissjóð heldur en þeir gerðu á þessu ári eins og þeir eiga að gera á næsta? Þar á meðal er lágtekjufólk sem ekki á fyrir mat frá degi til dags. Mér finnst þetta vanvirða við láglaunafólk, fólk með litlar tekjur, sem varla á fyrir brýnustu nauðþurftum að bera á borð svona málflutning eins og hv. þm. gerir. Og ég skora á þingmanninn að segja hér við láglaunafólk sem hugsanlega er að horfa á þessar umræður hvernig það eigi að lifa af 90 þús. kr. mánaðartekjum og borga um leið skatt af þeim upp á 10 þús. kr. Eigum við ekki að fara í það, hv. þingmaður, að jafna hér skattbyrðina frekar en að skattpína lágtekjufólk og færa fjármagnseigendum á silfurfati ár eftir ár skattaívilnanir sem skipta milljörðum?