Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 12:09:48 (451)

2002-10-10 12:09:48# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[12:09]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segir að skattar fyrirtækja lækki um 2 milljarða. Ég hef grun um að það sé vanáætlun. Það hefur nefnilega sýnt sig aftur og aftur að áætlanir fjmrn. um skattstofna þegar skattar eru lækkaðir hafa brugðist vegna þess að skattstofninn stækkar svo mikið þegar skattar eru lækkaðir. Þetta gerðist þegar fjármagnstekjuskatturinn var lækkaður. Þá stórjókst skattstofninn. Skattstofninn breikkaði og breikkaði þannig að tekjur ríkissjóðs sjöfölduðust þó að skatturinn væri lækkaður niður í 10% og ég hygg að nákvæmlega hið sama gerist með fyrirtækin, að þau muni sýna meiri hagnað. Þau geta nefnilega ráðið því. Það er hægt að reka fyrirtæki illa eða vel. Og þegar það er svo mikill hvati til að reka þau vel með lágum sköttum sýna þau meiri hagnað og geta borgað hærri laun líka. Það gleymist oft í umræðunni. En það að skattar einstaklinga hækka um 5 milljarða er til skoðunar, og við skulum bara spyrja: Getum við ekki lækkað skatta á einstaklinga almennt?