Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 12:10:55 (452)

2002-10-10 12:10:55# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[12:10]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur flutt till. til þál. sem ég er flm. að ásamt formanni Samfylkingarinnar, Össuri Skarphéðinssyni. Ég held að þessi tillaga sé í raun og veru ein sú merkasta sem komin er fram á þessu þingi, í þeim aragrúa þingmála sem kominn er fram ef frá er kannski skilinn grunnurinn að þessu öllu sem eru fjárlögin. Ég ætla ekki að ræða þau hér og nú en ég hlustaði með athygli á hv. þm. Pétur Blöndal sem efast um að hlutir séu þar réttir.

Þessi tillaga fjallar um það að kanna hvaða leiðir eru færar til að afnema eða lækka verulega tekjuskatt lágtekjufólks og lífeyrisþega sem hafa tekjur undir lágmarkslaunum. Í þessu sambandi bendum við m.a. á að kannaðir verði möguleikar á endurgreiðslu skattsins eftir á eftir að fólk hefur talið fram til skatts eða með sérstökum frádrætti frá tekjum.

Herra forseti. Ég segi það og sagði áðan í stuttu andsvari að ég held að þetta sé eitt brýnasta verkefnið í skattkerfisbreytingum á Íslandi í dag, þ.e. að bæta það og koma í veg fyrir að lágtekjufólk með minna en 90 þús. kr. borgi stóran hluta af tekjum sínum í skatt til ríkisins. Með öðrum orðum, ef við förum í gegnum þetta, er talið að í kringum 11.000 lágtekjufjölskyldur séu í landinu með árstekjur á bilinu 780--1.100 þús. kr. Ég ætla aðeins að vekja athygli á því, ef við förum yfir þessa liði, að skattkerfisbreyting sem átti að lagfæra rekstrarskilyrði fyrirtækja í landinu, rekstrarskilyrði fyrirtækja --- það má segja að við séum að tala um till. til þál. um að bæta rekstrarskilyrði lágtekjufólks og þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu og það getur vel verið að það skili sér þá betur í skattkerfinu eins og hv. þm. Pétur Blöndal talar stundum um --- en í þessu sambandi er rétt að minna á að 96 einstaklingar í landinu höfðu 116 millj. kr. að meðaltali í fjármagnstekjur --- 116 millj. --- og borga af þeim 10% skatt. Þessir sömu einstaklingar og fjölskyldur þeirra voru einungis með 3,7 millj. í launatekjur á síðasta ári og borguðu af þeirri fjárhæð 38,5% skatt eins og ég og hv. þm. Pétur Blöndal, sömu skattprósentu. Á sama tíma er núna boðað í fjárlagafrv. að tekjuskattur fyrirtækja í landinu muni lækka úr 7,5 milljörðum í 5,3 milljarða kr., þ.e. um 2,2 milljarða. Eignarskattur einstaklinga og lögaðila mun lækka um 4,4 milljarða. Á sama tíma er áætlað að tekjuskattar einstaklinga hækki um 5 milljarða, fari úr 65 milljörðum kr. í 70 milljarða kr., og af þessum 70 milljörðum kr. sem ríkissjóður hefur í tekjuskatt af einstaklingum á næsta ári kemur 1 milljarður kr. frá því fólki sem fær atvinnuleysisbætur, tryggingabætur og er með undir 90 þús. kr. í laun á mánuði. Ég trúi því ekki að nokkur einasti alþingismaður geti komið í ræðustól og mælt þessu bót.

Tillagan sem hér er flutt er till. til þál. til þess að skipa nefnd til að fara í gegnum þetta. Ég hlustaði með athygli á það sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði í sjónvarpi í gær í einhverjum umræðuþætti um 90 þús. kr. og 91 þús. kr. Það er enginn að tala um að þetta verði svona. Það er hægt að jafna þetta út öðruvísi og gera það þannig að þetta stökk komi ekki. En það er til í kerfinu að 100 kr. eða 200 kr. velti mönnum yfir í ákveðin tekjumörk og minnki bætur þeirra. Það er til.

[12:15]

Herra forseti. Ég hef stundum sagt að ein mesta skömm þessa þjóðfélags, þessa velmektarþjóðfélags er hvernig kjör við búum öldruðum og öryrkjum. Það er hrein skömm að því. Og ef maður skammast sín einhvern tíma fyrir að vera Íslendingur þá er það í raun og veru í þessum atriðum, það verður bara að segjast alveg eins og er. Ég trúi því ekki. Þegar ég sagði það áðan að hv. þm. Pétur Blöndal, sem ég kalla stundum talsmann Sjálfstfl. í skattamálum og velferðarmálum, væri eini maðurinn sem kæmi hér í þessa umræðu, þá er það mjög gott í sjálfu sér og ber að þakka fyrir það. En ég ætla líka að vekja athygli á því og það kemur kannski í ljós í seinni umræðu hvort fleiri þingmenn Sjálfstfl., svo maður tali nú ekki um garminn hann Ketil, Framsfl., komi og láti í sér heyra um þessi mál, sem ég stórefast reyndar um.

Við þurfum, herra forseti, að skapa þjóðarsátt um skattfrelsi lægstu launa, það er mál númer eitt, tvö og þrjú, til að bæta rekstrarskilyrði lágtekjufólks, ef við notum það orð og grípum til fyrirtækjamáls til að hv. þm. Pétur Blöndal kannski sérstaklega skilji það sem við erum að tala um. Við þurfum með öðrum orðum pólitíska sátt milli allra stjórnmálaafla á Íslandi við að finna þá bestu leið í gegnum skattkerfið til að fólk undir ákveðnum tekjumörkum, sama hvort við tölum um 90 þús. eða eitthvað annað, borgi ekki skatta til ríkisins í þessum efnum. Og ég tek það skýrt fram, eins og ég sagði áðan, að það á ekki að gera það þannig að við alþingismenn eða aðrir njótum þess að fá skattalækkun í þeim breytingum sem gerðar yrðu. Með öðrum orðum: Skattkerfisbreyting sem þarf að gera og er brýnast að gera á ekki að ganga yfir alla Íslendinga. Í því felst jafnaðarmennskan, í því efni sem við erum að tala hér um, að byrja á þeim sem minnst mega sín í þjóðfélaginu, og ganga í þetta.

Það má eiginlega segja, herra forseti, að þjóðfélag geti engan veginn talist velferðarþjóðfélag nema vel sé búið að öldruðum og öryrkjum og þeim tryggð sómasamleg kjör. Þetta er bara grundvallaratriði í þjóðfélaginu sem á að vera regla sem allir eiga að hafa í heiðri. Það eru allt of margir þjóðfélagsþegnar sem búa við kjör sem duga ekki fyrir nauðþurftum eða brýnustu framfærslu. Og þetta á ekki síst við um þá þjóðfélagsþegna sem ég hef hér gert að umræðuefni.

Herra forseti. Á þeim átta mínútum sem við þingmenn höfum til að fara í gegnum þetta mál og ræða mætti margt um það segja. Ég á þá ósk heitasta að eftir kannski tíu ár þurfi ekki svona mörk, þá verði þetta með öðrum orðum búið að ganga í gegnum þjóðfélagið. Þeir aldraðir sem fá mjög lágan lífeyri í dag af því að þeir byrjuðu að borga lífeyrissjóðsiðgjöld mjög seint vegna þess að svo og svo mikið af starfsævi þeirra var liðið --- ég hygg að við sem erum að vinna í dag og erum í fullu fjöri munum eiga áhyggjulaust ævikvöld þegar við eldumst. En það er ekki þannig í dag og það vantar að brúa það bil. Og ég á við það, herra forseti, þegar ég segi að brýnasta úrlausnarefni í skattamálum í dag eftir að rekstrarskilyrði fyrirtækja hafa verið bætt svo með skattkerfisbreytingunni sem gerð var á síðasta ári og mun sjá dagsins ljós á næsta ári og við sjáum núna í fjárlagafrv., skattaparadís, eins og hv. þm. Pétur Blöndal kallaði fyrir fyrirtæki, að við búum til á Íslandi skattaparadís fyrir lágtekjufólk. Fyrir fólk sem er með, ef við nefnum einhverja tölu, undir 90 þús. kr. til framfærslu á mánuði. Ég tel þetta brýnasta atriðið og við þurfum þjóðarsátt um að finna leið í gegnum skattkerfið til þessa, sama hvort það er gert í eftiráálagninu, eins og hátekjuskatturinn er lagður á, eða með einhverjum sérstökum afslætti í byrjun.