Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 12:35:30 (458)

2002-10-10 12:35:30# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., GE
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[12:35]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessari tillögu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, Össurar Skarphéðinssonar og Kristjáns L. Möllers um leiðir til að lækka eða fella niður tekjuskatt lágtekjufólks.

Virðulegur forseti. Það sem mér finnst almennt að í okkar stjórnkerfi er hversu langan tíma allar aðgerðir taka. Það liggur ljóst fyrir í mínum huga að hver sá einstaklingur sem er með undir 1,2 millj. á ári ætti að vera skattlaus. 100 þús. kr. á mánuði ættu að vera skattlausar. Ugglaust er það rétt að framkvæmd svona tillögu tekur nokkurn tíma. En það er nauðsyn á bráðaaðgerð vegna þessa í þjóðfélaginu. Íslenska þjóðin er rík ef miðað er við margar erlendar þjóðir. Hér býr samt fólk við sult og seyru. Líklega búa einhvers staðar á bilinu milli 5 og 10 þúsund manns á köflum við sult. Það er til skammar og menn ættu að láta vera að gera lítið úr því sem ég vil kalla hörmungar í þessum tilvikum sem allt of margir búa við og dæmið um konurnar sem voru að taka fuglinn við Tjörnina er beinlínis vegna hungurs.

En svo eru auðvitað aðrir í þjóðfélaginu sem þurfa að velta fyrir sér hverri krónu til að komast af. Hér á landi er ekki til neysluviðmiðun sem unnt er að ákvarða framfærslufjármuni eftir fyrir Íslendinga.

Herra forseti. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands mælir fyrir um að öllum sem þess þurfa skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Öllum skuli tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Börnum á að vera tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Ætla má að á margan hátt séu þessi mikilvægu mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar ekki virt þegar litið er til hvaða aðstaða láglaunafólki, atvinnulausum, fjölda aldraðra og öryrkja er búin. Það samræmist ekki almennum mannréttindum þessa fólks, barna þeirra og fjölskyldna að þótt það hafi sultarlaun sér til framfærslu þá séu launin skattlögð.

Ég tek undir það sem sagt er í þessari tillögu, að öll rök mæli með því að hún verði samþykkt og reynt að ná þjóðarsátt um leiðir til að laun fyrir brýnustu nauðþurftum verði ekki skattlögð.

Herra forseti. Hvaða aðferða sem menn svo grípa til til að bæta úr þessari skömm þá þarf að gera það skjótt. Það þarf í rauninni að gera það með leiftursókn. Nú er tækifæri fyrir stjórnarflokkana til að grípa til leiftursóknar, þ.e. að grípa til leiftursóknar til að bæta kjör þeirra lakast settu. Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara í karp út af krónum í þessum tilvikum. Það verður að miða við um það bil 100 þús. kr. á mánuði til framfærslu fyrir einstaklinginn. Þeir fjármunir þurfa og eiga að vera skattlausir ef um engar aðrar tekjur er að ræða. Ég tek það sérstaklega fram, herra forseti: Ef um engar aðrar tekjur er að ræða. Þetta segi ég vegna orða hv. þm. Péturs H. Blöndals sem var að búa til tekjur á ýmsan máta fyrir þá sem lökust hafa kjörin.

Virðulegi forseti. Að lokum get ég ekki látið vera að vekja athygli á því að þingmenn stjórnarflokkanna hafa engan eða a.m.k. mjög takmarkaðan áhuga á þeim málum sem varða kjör lakast settra Íslendinga. Það er nánast að segja óþolandi að stjórnarflokkarnir skuli ekki, einhverjir fulltrúar þeirra aðrir en hv. þm. Pétur H. Blöndal, taka þátt í þessum umræðum. Það sýnir að þeim er nánast sama um að í landinu skuli búa fólk sem sveltur, býr við sult og seyru eins og ég sagði áðan.

Það er búið að reikna margt út. Mér er minnisstæð fyrsta umræðan þar sem ég átti í þessum stól orðastað við hv. þm. Pétur H. Blöndal þegar hann sagði fyrir fjórum árum síðan að enginn vandi væri að lifa af 43 þús. kr., menn yrðu bara að sníða sér stakk eftir vexti. Þetta sagði hv. þm. fyrir fjórum árum. Hann er enn við sama heygarðshornið. Menn eiga bara að sníða sér stakk eftir vexti. Það er alveg sama hvernig sá stakkur er sniðinn, hvort fólk þurfi að búa í kössum eða hvort það þurfi að lifa af því að snúa önd úr hálsliðnum hér við Tjörnina eða álft til að eiga ofan í sig að eta.

Herra forseti. Ég legg þunga áherslu á að efh.- og viðskn. taki þessa tillögu ekki bara til þess að svæfa hana heldur taki hana og sýni að menn geti brett upp ermarnar og klárað þetta mál, ekki bara í vetur því eins og hér er getið um þá er verið að tala um að skila þessu eftir árið. Þessu á að vera hægt að skila eftir tvo mánuði. Ég minni á að Færeyingar breyttu fiskveiðistjórnarkerfi sínu á þremur mánuðum og sneru frá þeirri villu sem hér er ríkjandi, þ.e. fiskveiðistjórnarkerfi. Þeir sneru frá þeirri villu á örskömmum tíma og hafa náð eftirtektarverðum árangri. Í þessu máli sem við erum að tala um hér, kjör einstaklinganna, þá geta menn snúið frá villu síns vegar, eins og ég vil kalla það, og lagað þetta mál nánast á örskömmum tíma, á innan við mánuði ef þeir vildu taka á því. Þess vegna nefndi ég, virðulegur forseti, leiftursókn. Núna er tækifærið fyrir ríkisstjórn hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar til að snúa við blaðinu og grípa til leiftursóknar til að lagfæra kjör þeirra lakast settu á Íslandi.