Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 12:43:26 (459)

2002-10-10 12:43:26# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[12:43]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við erum að ræða till. til þál. um skattfrelsi lágtekjufólks sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir mælti fyrir fyrr í morgun.

Efni tillögunnar er að skipuð verði nefnd eða starfshópur til þess að kanna hvaða leiðir eru færar til að afnema eða lækka verulega tekjuskatt lágtekjufólks og lífeyrisþega sem hafa tekjur undir lágmarkslaunum.

Ég hef hlýtt á þessar umræður í morgun og það var svo sem að vonum að hér kæmu fulltrúar Sjálfstfl. og færu að tala sérstaklega fyrir því að hugmyndir eins og hér er lagt upp með ættu ekki rétt á sér.

Ég vil lýsa þeirri afstöðu okkar þingmanna Frjálslynda flokksins að við munum styðja þetta mál af heilum hug. Við teljum að hér sé verið að hreyfa mjög athyglisverðu máli sem hefur margar hliðar eins og komið hefur fram í umræðunni. Það er ýmislegt skattformið í þessu þjóðfélagi. En eins og tillagan er hugsuð þá gengur hún út á það að skoðaðir verði möguleikar á endurgreiðslu skattsins eða sérstökum frádrætti frá tekjum. Ég tek mjög undir það efni sem tillagan gengur hér út á, þ.e. að tryggja að lægstu tekjur séu skattfrjálsar, sérstaklega varðandi tekjuskattinn. Það hefur einnig komið fram í máli hv. þingmanna, sem allir vita jú nema þá e.t.v. þeir sem í stjórnarflokkunum sitja nú og vilja lítið um tala, að persónuafslátturinn hefur lækkað um yfir 30% að raungildi frá því að hann var settur á. Því er alveg ljóst að þróunin hefur því miður verið í þá átt á undanförnum árum að lágtekjufólkið hefur þurft að taka á sig meiri skattbyrði. Menn hafa verið að færa skattbyrðina til.

[12:45]

Ég hygg t.d. að hægt sé að segja að stjórnarandstaðan í heilu lagi sé algjörlega andvíg þeirri stefnu sem hefur birst í tillögum og framkvæmd ríkisstjórnarinnar um að lækka hátekjuskattinn og að gripið sé til sérstakra aðgerða til að lækka hátekjuskattinn á sama tíma og sífellt fleiri af lágtekjumönnum þessa lands greiða tekjuskatta. Þeim fer fjölgandi.

Mér var nýlega sent blaðið Tíund sem gefið er út af ríkisskattstjóra. Ég vil, með leyfi forseta, lesa hér smákafla um almennan tekjuskatt en hann hljóðar svo:

,,Tekjuskattar, þ.e. almennur tekjuskattur, sérstakur tekjuskattur og fjármagnstekjuskattur, hækkuðu um 16% á milli ára á sama tíma og skattskyldar tekjur hækkuðu um 11,5%. Hér munar mest um hækkun útsvars en útsvar til sveitarfélaga hækkaði um rúmlega 8,2 milljarða frá fyrra ári, úr 47,8 milljörðum í 56 milljarða, eða um 17,3%. Hækkun útsvars stafar af hærri tekjum og hærra skatthlutfalli, en meðalútsvar í staðgreiðslu hækkaði úr 11,96%, af tekjum ársins 2000, í 12,68% ...``

Við munum sjálfsagt eftir, herra forseti, að gerð var ákveðin skattbreyting á síðasta þingi þar sem við lækkuðum hlutfall tekjuskattsins úr 26,41% niður í 26,08%. Á móti hækkaði hins vegar útsvarsprósenta sveitarfélaganna þannig að ekki var um skattalækkun til fólks að ræða og alls ekki um skattalækkun til lágtekjufólks.

Síðan segir hér áfram, með leyfi forseta:

,,... á milli ára hækkar almennur tekjuskattur meira en nemur hækkun tekna og er ástæða þessa sú að persónuafsláttur hefur ekki hækkað eins og laun og því greiða nú fleiri tekjuskatt en fyrr. [...] Gjaldendum almenns tekjuskatts fjölgaði nú um 6.901 á milli ára,`` segir hér í þessari úttekt en þetta er samanburður á skattárunum 2001 og 2002.

Síðan segir einnig, með leyfi forseta:

,,Þeim sem greiða sérstakan tekjuskatt fækkar um 1.844, þeir voru 15.144 við álagningu í fyrra en voru nú 13.300 eða um 6% af framteljendum á grunnskrá,`` segir hér.

Þetta sýnir auðvitað hvaða áherslur hefur verið lagt upp með við skattalagabreytingar. Við erum að færa skattbyrðina yfir á lágtekjufólk og erum að lækka skattbyrði á hátekjufólki. Þar fyrir utan höfum við lækkað tekjuskatta á fyrirtæki.

Í lok ræðu minnar langar mig að víkja að öðru fyrirbæri sem oft hefur verið nefnt jaðarskattur. Það er auðvitað hluti af skattkerfinu eins og það virkar. Þingmenn Frjálslynda flokksins lögðu fram á síðasta þingi, og munu endurflytja í næstu viku, tillögu um það sem við kölluðum tryggan lágmarkslífeyri. Sá lífeyrir átti að hafa þá virkni, ef af framkvæmd yrði, að bætur almannatrygginga og réttindi örorkulífeyrisþega skertust ekki þótt lífeyrisþegi ætti rétt á a.m.k. 40 þús. kr. úr lífeyrissjóði. En eins og kerfið er uppbyggt í dag skerðast einmitt almannatryggingabæturnar og örorkubæturnar um leið og fólk fer að hafa einhverjar lágmarkstekjur.

Það hefur komið fram, m.a. í máli hv. þm. Kristjáns L. Möllers hér í morgun, að því miður er það enn þá svo að margir lífeyrisþegar í þjóðfélagi okkar eiga lágan lífeyrisrétt. Þeir eiga margir lágan lífeyrisrétt og hagur lífeyrisþega mun almennt ekki batna fyrr en eftir 20--25 ár. Það er auðvitað vegna þess að menn greiddu í lífeyrissjóð af lágum launum og lífeyrissjóðakerfið komst ekki á fyrr en eftir 1970.

Samt sem áður er það svo að þeir sem núna hafa lágan lífeyri og eru að taka hann út verða fyrir beinni jaðarskattaskerðingu með því að missa bætur á móti. Auðvitað koma svo tekjuskattarnir þar ofan á þannig að þetta er réttlætismál sem ég tel eðlilegt að fjalla um á hv. Alþingi.