Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 13:41:15 (462)

2002-10-10 13:41:15# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[13:41]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst fyrri hluti þessarar ræðu dálítið merkilegur. Hv. þm. skammaði mig fyrir að tala um árið í staðinn fyrir mánuðinn. En hvað gerði hann sjálfur og hvað gerði hæstv. fjmrh.? Þeir gerðu nákvæmlega þetta. Þeir tóku upp töluna fyrir mánuðinn og margfölduðu svo og töluðu um hvað það kostaði ríkissjóð á ári. Þannig var það. Ég tel ástæðu til að vekja athygli manna á því að þessir hlutir skipta ekki öllu máli þegar verið er að tala um að færa til skattbyrðina. Þá skiptir ekki öllu máli hvað menn tala um stórar tölur. Það er verið að færa þær til, ekki láta þær hverfa.

Það er svo önnur saga þegar verið er að skoða hvort ríkissjóður borgar hlutina eða sveitarsjóðir. Það skiptir ekki máli í umræðunni gagnvart almenningi í landinu. Það skiptir ekki máli gagnvart skattbyrði almennings hvort ríkissjóður þarf peningana eða sveitarsjóðirnir.

Hvað varðar þennan flata tekjuskatt var ég ekki að leggja hreinlega til að hann yrði tekinn upp. En ég sagði að mér fyndist ástæða til að menn færu yfir þessi mál og ef menn teldu betra að hafa bætur til að tryggja fólki framfærsluna en láta það síðan borga sömu skattprósentu og aðra væri það allt í lagi ef bæturnar tryggðu þær tekjur sem fólk þarf til að lifa á. Það getur verið að það sé einfaldara kerfi og þess vegna segi ég að ég útiloka það ekki.