Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 14:08:06 (466)

2002-10-10 14:08:06# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[14:08]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kom inn á sérstaklega skemmtilegt vandamál eða mótsögn. Í fyrsta lagi talar hann um örorkulífeyri. Ég vil nú nefna að örorkulífeyrir sjómanna getur verið afskaplega hár. Menn eru kannski að borga, þrítugur maður er að borga af 400--500 þús. á mánuði inn í Lífeyrissjóð sjómanna, hann fær framreikning til sjötugs ef hann verður öryrki, hann getur fengið 200.000 og þar yfir í örorkulífeyri. Rétt að halda því til haga. En svo eru náttúrlega margir aðrir með afskaplega lágan lífeyri.

Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er það að við erum með almannatryggingar sem veita grunnlífeyri. Ef sá lífeyrir á að hækka mjög mikið þýðir það að þeim sem hafa engan lífeyrisrétt í lífeyrissjóði er borgið, en það verður að skerða þann lífeyri hjá hinum sem hafa borgað í lífeyrissjóð, eða við verðum komin með tvöfalt kerfi. Að menn séu bæði með lífeyri frá almannatryggingum og frá lífeyrissjóði, sjómaðurinn með sínar 200 þús. kr. í lífeyri fái lífeyri frá almannatryggingunum til viðbótar. Við verðum komin með fólk sem verður með hærri lífeyri samtals en hinn vinnandi maður. Ef við ekki skerðum lífeyri úr lífeyrissjóði og borgum tvöfalt, bæði frá almannatryggingum og lífeyrissjóði, þá verðum við komin með fólk sem verður með hærri tekjur sem lífeyrisþegar en það hafði sem vinnandi fólk og það gengur ekki.

Það er þetta sem við erum að glíma við alla tíð að það verður að skerða þessi kerfi þegar þau koma saman. Og þá kemur fólk og spyr: Til hvers var ég að borga í lífeyrissjóð í 40 ár ef ég fæ ekkert fyrir það? Þetta er einmitt sá vandi sem gerir það að verkum að það er hreinlega ekki hægt að hækka bætur almannatrygginga eins og kannski margir vildu vegna þess að þá kemur svo mikið misræmi í kerfið, bæði gagnvart vinnandi fólki og gagnvart þeim sem hafa borgað í lífeyrissjóð í 40 ár.