Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 14:10:08 (467)

2002-10-10 14:10:08# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[14:10]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal tók dæmi af lífeyrisþega sem nyti örorkulífeyrisbóta upp á 200 þús. kr. og nefndi þar kannski sérstaklega til sjómenn, að þeir gætu komist í háa bótaflokka ef þeir yrðu öryrkjar.

Ég var nú ekkert sérstaklega að ræða um öryrkja í máli mínu, ég var bara að ræða um almennan rétt fólks í lífeyrissjóði sem gæti verið mjög lágur. Mér er fullkunnugt um það, hv. þm., að ef menn slasast og verða öryrkjar fá þeir framreikning í Lífeyrissjóði sjómanna eins og öðrum lífeyrissjóðum. En mér er líka fullkunnugt um það, hv. þm., að það er mikill munur á örorkulífeyrisgreiðslum Lífeyrissjóðs sjómanna og t.d. lífeyrisjóðs fólksins sem starfar í bankastofnunum. Og ég hugsa að það eigi líka við um alþingismenn, að mjög fáir alþingismenn njóti örorkulífeyrisbóta. Lífeyrissjóður sjómanna er nánast eins og tryggingafélag fyrir útgerðina með 43% af skuldbindingum sínum eða greiðslum sínum í örorkubætur, á sama tíma og hægt er að finna dæmi um það að Lífeyrissjóður bankastarfsmanna er að greiða 1,8% í örorkubætur. Sá lífeyrissjóður virkar eins og lífeyrissjóður, enda hafa lífeyrisréttindi ekki verið skert hjá bankamönnum. En þau hafa margsinnis verið skert hjá sjómönnum svo dæmi sé tekið.

Ég var eingöngu að benda á það í máli mínu að sú útfærsla sem við búum við þegar fólk á lítinn lífeyri og hann skerðir strax bæturnar finnst mér óréttlát og að taka eigi á því vandamáli sérstaklega.