Lífeyrissjóður sjómanna

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 15:20:07 (476)

2002-10-10 15:20:07# 128. lþ. 8.5 fundur 12. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (iðgjöld) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[15:20]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Það er við hæfi að rifja upp fyrir hv. þingmönnum, félögum í Frjálslynda flokknum og Vinstri grænum, að núverandi formaður flokksins var einn af valdhöfunum þegar lögin voru sett um að sjómenn gætu tekið lífeyri við 60 ára aldur. Hann var einn af valdhöfunum þá og studdi ríkisstjórnina þegar sjómenn voru í samningum. Honum þótti þá ekki eðlilegt, formanni þess ágæta flokks, að rétta fram ávísun til að greiða þann kostnaðarauka sem hlytist af vegna þessa máls. Það er gott að þar hafi orðið pólitísk breyting og vonandi hefur hún orðið í föðurhúsum, jafnt hjá þeim hæsta sem lægsta þar innan dyra.

Það gerðist í kjarasamningum sjómanna á árum áður, þegar samþykkt var að greiða í sjúkrasjóði og orlofssjóði stéttarfélaganna af öllum launum, að það þótti ekki eðlilegt að gera hið sama varðandi sjómenn. Þar er önnur skekkja. Finnst þingmanni þá ekki eðlilegt að taka allt undir, alla þá skekkju sem myndast hefur í gegnum árin hjá sjómönnum? Iðgjald í orlofssjóð, iðgjald í sjúkrasjóð og meira mætti til telja.

Hvað áhrærir greiðslur í lífeyrissjóði get ég alveg tekið undir að eðlilegt sé að hækka iðgjöld í lífeyrissjóði enda kom ég inn á það áðan að eðlilegt væri að endurskoða iðgjöld í lífeyrissjóðina vegna 10% reglunnar sem sett var í upphafi, miðað við miklu styttri lífaldur Íslendinga. Þessi 10% regla gekk einnig út á að lífeyrir yrði almennt ekki tekinn fyrr en við 67 eða 70 ára aldur. Þannig er af mörgu að taka. Auðvitað er fullt af málum hér innan þingdyra sem eðlilegt væri og sjálfsagt að segja já við og hleypa út í þjóðfélagið, allt sem hægt er að fella undir réttlætismál. En í sumum málum tel ég eðlilegt að aðilar vinnumarkaðarins véli um sjálfir eins og ég hef sagt áður. Ég tel að ég sé sjálfum mér samkvæmur í málflutningi mínum.