Lífeyrissjóður sjómanna

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 15:22:30 (477)

2002-10-10 15:22:30# 128. lþ. 8.5 fundur 12. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (iðgjöld) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[15:22]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er litlu nær hvað varðar svar hv. þingmanns. Hann fór í söguskýringu en ég tel mig þó vita að 60 ára reglan hafi verið samþykkt samhljóða. Það hefur komið fram í öllum ræðunum hér að þingheimur hafi verið sammála um að Alþingi kæmi að leiðréttingum með fjárframlögum á seinni stigum sem ekki hefur gerst síðan.

Ég er ekki búinn að vera á þingi nema í þrjú ár og horfi á staðreyndirnar eins og þær eru núna. Samkvæmt uppgjöri sjóðsins má gera ráð fyrir skerðingum. Í pípunum eru skerðingar og þá er að bregðast við núna þannig að til þeirra komi ekki. Ég tel þá leið sanngjarna sem lögð er til í þessu frv., þ.e. hækkun á inngreiðslum frá útgerðarmönnum. Ég tel líka sanngjarnt að þingið komi að málunum.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur hreyft hugmyndum sem ég tek heils hugar undir, svo sem um að nota fjármuni, t.d. fyrir meðafla að hluta eða kannski að öllu leyti til að stuðla að leiðréttingu á sjóðnum tímabundið. Þetta er verkefni sem við stöndum frammi fyrir núna. Við getum ekki horft upp á það að sjómenn og makar þeirra verði fyrir frekari skerðingu. Við eigum að bregðast við nú þegar. Þannig horfa málin við mér. Þess vegna er það bara einföld spurning í núinu, þ.e. hvort hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni finnist ekki sanngjarnt og eðlilegt að fara þá leið sem hefur verið svo vel unnin og lögð fram í frv. sem hér er til umræðu.