Lífeyrissjóður sjómanna

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 15:25:30 (479)

2002-10-10 15:25:30# 128. lþ. 8.5 fundur 12. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (iðgjöld) frv., Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[15:25]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil í lok umræðunnar bæta við upplýsingum um þetta mál þannig að þær komi fram í þingtíðindum. Eins og ég upplýsti áður í máli mínu er mér kunnugt um að á málalista ríkisstjórnarinnar, á málalista hjá hæstv. fjmrh., er tilkynning um að lagt verði fram frv. um Lífeyrissjóð sjómanna. Eftir því sem ég best veit mun það ganga út á að taka enn á ný á uppsöfnuðum vanda í lífeyrissjóðnum. Sá vandi er því miður mikill á árinu 2001 og samkvæmt úttekt Talnakönnunar vantaði 7.514 millj. kr. upp á að sjóðurinn ætti eignir á móti heildarskuldbindingum sínum, þ.e. 8,8%. Ef ég man rétt var þessi tala 6% árið á undan. Hallinn er því að aukast og vantar hærri upphæðir.

Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni kveða lögin um almenna starfsemi lífeyrissjóða frá 1997 á um skyldu stjórnarmanna til að bregðast við. Stjórnarmenn í Lífeyrissjóði sjómanna eiga svo sem ekki frekar en í öðrum lífeyrissjóðum mikla möguleika aðra en að leggja til einhvers konar skerðingu til að laga stöðu sjóðsins. Ekki hefur sjómannasamtökunum tekist, á undanförnum árum --- hvorki meðan ég var í forustu Farmanna- og fiskimannasambandsins né síðar --- að ná fram auknum inngreiðslum í lífeyrissjóðinn.

Ég hygg að Sjómannasamband Íslands sé í sérstökum málaferlum við LÍÚ eða Samtök atvinnurekenda um hvort þeir séu aðilar að því að 1% meira komi inn í lífeyrissjóðina, 7% en ekki 6%. Þeir töldu sig hafa náð slíku samkomulagi sl. vor ef mig misminnir ekki.

Staða sjóðsins er erfið og málin horfa hreint ekki til betri vegar, því miður. Þess vegna tel ég enn frekari ástæðu til að taka þetta mál til jákvæðrar umfjöllunar í hv. Alþingi. Á hinum tveimur fyrri þingum sem ég hef lagt þetta fram hefur þetta ekki náð fram að ganga.

Ég vil enn ítreka, til að koma í veg fyrir allan misskilning, að tillagan um að greiða 2% meira inn í lífeyrissjóðinn mun ekki mynda réttindi fyrir hvern lífeyrisþega, eins og frv. ber auðvitað með sér, heldur er það eingöngu til að laga stöðu sjóðsins þannig að menn þurfi ekki enn einu sinni að skerða réttindi. Þetta frv. á að koma í veg fyrir það. Síðan yrði auðvitað að semja um framhaldið ef svo tækist til. Ef hægt yrði að rétta sjóðinn við á fáum árum yrði auðvitað að semja um framhaldið við útgerðarmenn, þ.e. hvort menn vildu láta eitthvað af þessum 2% renna áfram inn í sjóðinn eða gera þau að greiðslu fyrir hvern einstakling.

Eins og við vitum mætavel hefur í fjölmörgum lífeyrissjóðum verið samið um það við atvinnurekendur að þeir greiði hærra hlutfall en 6% miðað við laun inn í lífeyrissjóði, þeir greiði 7% og þaðan af meira. Er það ekki rétt munað hjá mér að inn í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna komi 14%? Þróunin hefur verið sú að bæta stöðu launamanna í lífeyrissjóðum enda er treyst á það til framtíðar að lífeyriskerfið verði ein styrkasta stoð ellilífeyrisþega á komandi árum og áratugum.

[15:30]

Það er líka rétt að láta koma fram, herra forseti, ákveðnar tölur um fjölda sjóðfélaga sem ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr minnisblaði sem ég er með. Alls 5.800 sjóðfélagar hjá 642 launagreiðendum greiddu iðgjöld til sjóðsins á árinu 2001. Iðgjöld ársins námu samtals 1.886 millj. og hækkuðu um 13,6% frá árinu 2000. Lífeyrissjóðsgreiðslur sjóðsins á árinu 2001 námu samtals 975 millj. og hækkuðu frá árinu 2000 um 12,2%. Ellilífeyrir nam 410 millj. eða 42% af heildarlífeyrisgreiðslum sjóðsins. Örorkulífeyrir nam 419 millj., þ.e. 43% á árinu 2001, makalífeyrir nam 108 millj., 11%, og barnalífeyrir 38 millj., 4%. Þetta er staðan og úttektin úr skýrslu lífeyrissjóðsins árið 2001.

Fjöldi lífeyrisþega í desember 2001 var sem hér segir: Ellilífeyrisþegar voru 1.236, örorkulífeyrisþegar 755, makalífeyrisþegar 486 og greiddur var barnalífeyrir til 435 barna sjóðfélaga. Eins og ég gat um áður er gert ráð fyrir því í hugmyndum manna við að bregðast við vanda sjóðsins að makalífeyririnn verði skertur og það frv. mun sennilega koma inn á haustdögum. Ég ætla rétt að leyfa mér að vona að menn í hv. Alþingi vilji fara einhverja aðra leið en endalaust að ganga á réttindi lífeyrisþeganna í Lífeyrissjóði sjómanna. Þess vegna vonast ég til að sú tillaga sem ég flyt hér nú í þriðja sinn fái betri og vandaðri umfjöllun en hún hefur fengið og komi hér aftur inn úr hv. nefnd sem tillaga til lagabreytinga.

Nú hefði verið gaman ef sjútvrh. hefði verið í húsinu. Reyndar frétti ég á skotspónum að hann hefði skotist inn úr dyrunum en hlaupið strax út aftur. Ég veit ekki hvort það var vegna þess að hann vissi að ég var í ræðustól eða af einhverjum öðrum orsökum en hann var alltént mjög snöggur. En hvað um það, hann er ekki hér. Samt ætla ég að ræða það sem ég hef komið áður að í þessum ræðustól. Við ræddum regluna um 5% meðafla, um að það mætti mynda tekjur með því að leyfa sjómönnum að landa meðafla svo að þeir lentu ekki í þeirri stöðu að þurfa jafnvel að henda honum fyrir borð til þess að missa ekki veiðileyfi. Staðreyndin er sú að þessi 5% regla er byrjuð að virka og þegar eru komnar tekjur yfir 100 millj. --- ég held að það séu 112 millj. --- herra forseti, á fyrstu sjö mánuðunum sem reglan hefur verið í gildi. Tillaga mín var sú þegar við ræddum þetta að t.d. helmingur af þeim tekjum sem kæmu af þessum upptökuafla yrði látinn renna til Lífeyrissjóðs sjómanna, m.a. til þess að bæta stöðu þeirra þannig að við sætum ekki endalaust í hv. Alþingi með frumvörp um að skerða lífeyrisréttindi manna í Lífeyrissjóði sjómanna. En því miður tóku stjórnarflokkarnir ekki undir þessa útfærslu. Menn sögðu sem svo að þetta mætti skoða síðar og ekki væri verið að hafna þessari leið en það væri óþarfi að gera þetta.

Ég held að sú staða sem við erum nú í varðandi lífeyrismál sjómanna hafi enn frekar sýnt að virkileg þörf var á þessu og að við hefðum átt að bregðast við. Ef við hefðum bara tekið helminginn af þessu fé sem líklega mun koma úr lönduðum afla fram hjá kvótakerfinu gæti verið að við hefðum fengið kannski 100 millj. árlega inn í þennan lífeyrissjóð. Það munar um minna, herra forseti. Ég hygg að ef þessi regla verður í gildi áfram og menn ætla að hafa kvótakerfið eins og það hefur verið með þeim þrengingum og erfiðleikum sem menn hafa lent í þegar búið er að taka fjölmargar tegundir inn í kvótakerfið, miklu fleiri en þar ættu nokkurn tíma að vera, lenda menn sífellt í meiri og meiri vandræðum og eru þar af leiðandi meira og meira að nota sér svona 5% reglu. Þar af leiðandi held ég að þær tekjur fari vaxandi á næsta fiskveiðiári miðað við það sem verður á þessu. Þess vegna væri mjög auðvelt með góðum vilja Alþingis að breyta þessum lögum þannig að þessar tekjur yrðu m.a. til þess að bæta hag Lífeyrissjóðs sjómanna. En núna renna þær allar til Hafrannsóknastofnunar. Ég er út af fyrir sig ekki sammála því að þær renni allar þangað og meira að segja sá hlutinn sem áfram mundi renna til Hafrannsóknastofnunar held ég að ætti að vera skiptur milli þeirra á Hafrannsóknastofnuninni og annarra vísindamanna sem vilja stunda frjálsar rannsóknir. Þetta er smáútúrdúr en tengist samt málinu vegna þess að komið var inn á þetta. Þetta er ein af þeim leiðum sem væri hægt að nota til þess að fjármagna betri stöðu í lífeyrissjóðnum.

Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd, herra forseti, að íslenskir útgerðarmenn bera ábyrgð á Lífeyrissjóði sjómanna. Þeir eiga að bera á honum ábyrgð. Þeir eru þar í stjórn. Það er m.a. vegna þess hversu illa gekk að semja við útgerðarmenn á sínum tíma að staða lífeyrissjóðsins er eins og hún er. Það er allt í lagi að rifja það upp, herra forseti, að fyrst þegar menn sömdu um þau réttindi að sjómenn greiddu í lífeyrissjóð, almennir sjómenn, greiddu menn af kauptryggingu og yfirmenn greiddu þá af hásetakauptryggingunni og gott ef menn byrjuðu ekki á að greiða af hálfri tryggingu fyrstu tvö árin eða svo. Þegar farið var í verkfall út af þessum málum árið 1985 til að ná inn greiðslum í lífeyrissjóð af öllum launum sjómanna var samið um að það yrði gert í áföngum. Og fyrsta samningsárið var greitt af 50% launanna, 75% annað samningsárið og það var ekki fyrr en 1987 sem sjómenn, hinir almennu fiskimenn, þ.e. á bátakjörum, fóru að greiða í lífeyrissjóð af öllum launum þannig að menn eru ekki búnir að greiða í lífeyrissjóð af öllum launum, herra forseti, nema í 15--16 ár. Þannig er þetta mál vaxið. Þar af leiðandi er staða manna og réttindainnvinnsla í Lífeyrissjóði sjómanna mjög misjöfn.

Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar að það voru togarasjómenn sem riðu á vaðið fyrir hönd íslenskra fiskimanna og sjómanna um að ná réttindainnvinnslu í lífeyrissjóði. Það voru íslenskir togarasjómenn á hinum gömlu togurum og togarasamningum sem greiddu í lífeyrissjóð af öllum launum. Eitt frægasta samanburðardæmið sem notað var í kjarasamningunum árið 1985 þegar við vorum að berjast fyrir lífeyrisréttinum var einmitt samanburðardæmi af Norðurlandi þar sem bornir voru saman tveir mjög afkastamiklir skipstjórar, annar sem hafði verið síldveiðaskipstjóri og hafði verið á bátaflotanum alla sína tíð og greitt í lífeyrissjóð eftir þeim reglum sem um bátasjómenn giltu, og hinn sem hafði verið á stóru togurunum, eða gömlu togurunum svokölluðu, og hafði greitt í lífeyrissjóð af öllum launum. Þegar þessir menn fóru að skoða réttindastöðu sína --- það vildi svo til að síldarskipstjórinn veiktist og þurfti að fara í land --- hver var staða hans eftir alla sína starfsævi sem toppaflaskipstjóri á Íslandsmiðum? Hann átti 6 þús. kr. í lífeyrisrétti þegar hinn sem hafði greitt í lífeyrissjóð af öllum launum sínum átti hátt á annað hundrað þúsund í rétti. Þannig er nú staðan og þess vegna á fjöldi lífeyrisþega í landinu, bæði sjómenn og verkafólk, lítinn lífeyrisrétt enn þann dag í dag. Og þó að þrýst sé á það til framtíðar að lífeyrisréttindi manna verði burðarstoð í launum ellilífeyrisþega mun það ekki duga fyrir allan almenning fyrr en eftir kannski 20--25 ár. Þess vegna er það m.a. sem Frjálslyndi flokkurinn hefur líka lagt fram frv. um að tryggja réttindi fólks með lágmarkslífeyri sem er auðvitað einn angi af þessu máli en tengist því ekki að öðru leyti.

Herra forseti. Ég vonast til þess að þær upplýsingar sem ég hef þulið upp um stöðu lífeyrissjóðsins geti orðið til þess að þegar við förum að ræða frv. um frekari skerðingar, sem boðað er að fjmrh. muni flytja á haustdögum, geti menn flett upp í þessari ræðu minni og blaðað í þessum upplýsingum um hina talnalegu stöðu og greiðsluhlutfall í örorkulífeyri annars vegar og hvað vantar í sjóði hins vegar, og það auðveldi mönnum þá að ræða málin í samhengi. Ég trúi því ekki, herra forseti, að það líði svo þetta hv. Alþingi enn á ný að ekki verði tekið á þessu vandamáli. Það væri okkur öllum til skammar.