Alþjóðahvalveiðiráðið, Evrópuár öryrkja, rjúpnaveiðitíminn

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 15:19:36 (490)

2002-10-14 15:19:36# 128. lþ. 9.91 fundur 170#B Alþjóðahvalveiðiráðið, Evrópuár öryrkja, rjúpnaveiðitíminn# (aths. um störf þingsins), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[15:19]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Þó að þessari umræðu hafi ekki verið beint til mín er ég einn af þeim fagráðherrum sem þetta mál snertir. Það er rétt að í þessu máli hafa verið reistar kröfur sem ég hef ekki rúmað innan fjárhagsramma við fjárlagagerð. Auðvitað er verið að fara yfir það mál og ég mun kalla í forustumenn Öryrkjabandalagsins og ræða við þá. Ég hef tjáð þeim að ég muni fara yfir stöðu þessara mála í framhaldi af auglýsingu þeirra. Ég leyni því ekki að sú kröfugerð sem þar er sett fram, m.a. um að bætur fylgi launaþróun, er nokkuð sem mér tekst ekki að uppfylla innan míns fjárhagsramma.

Hins vegar vil ég láta koma fram, svo öllu sé til skila haldið, að með lagabreytingu á síðasta ári var stigið verulegt skref í málefnum öryrkja. Þá voru settar 700 millj. í bæturnar og um 1.400 millj. á þessu ári og m.a. var dregið úr skerðingu vegna atvinnuþátttöku öryrkja, sem var mjög gott skref og ég held að allir hafi verið sammála um það.

Ég vildi láta þetta koma fram þó að þessari umræðu væri, eins og hv. málshefjandi sagði, ekki beint til mín. Ég er þó sem fagráðherra einn af þeim sem eiga þarna hlut að máli.