Fjáraukalög 2002

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 15:24:19 (492)

2002-10-14 15:24:19# 128. lþ. 9.4 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[15:24]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2002, sem er að finna á þskj. 66.

Með frv. er lögð fyrir Alþingi endurskoðuð tekjuáætlun yfirstandandi árs og tillögur um breytingar á fjárheimildum til ýmissa verkefna. Samtals er gert ráð fyrir að tekjur hækki um 5,7 milljarða kr. og lagt er til að útgjöld aukist um 7,3 milljarða. Áætlað er að rekstrarafkoma ríkissjóðs rýrni um 1,3 milljarða þegar tekið hefur verið tillit til flutnings fjárheimilda á milli ára en lánsfjárjöfnuðurinn lækkar um 17,6 milljarða þar sem ekki varð af eignasölu í árslok 2001 sem reiknast hefði til tekna á þessu ári.

Frv. ber með sér að breyting til hins betra er að verða í efnahagslífinu. Aðlögun þjóðarútgjalda að þjóðartekjum er skýrt merki um að hagvöxtur sé að taka við sér á nýjan leik. Þrátt fyrir að áætlanir geri ráð fyrir að landsframleiðsla muni standa í stað á þessu ári benda tölur um innheimtu tekna ríkissjóðs til þess að umsvifin séu að glæðast, kaupmáttur hefur vaxið á árinu og ársfjórðungstölur þjóðhagsreikninga Hagstofu Íslands benda til að hagvöxtur gæti jafnvel orðið einhver á árinu. Fyrri spár gerðu ráð fyrir samdrætti í landsframleiðslu á milli ára.

Aukinn hagvöxt frá fyrri spám má einkum rekja til aukins útflutnings. Verðbólga hefur eins og kunnugt er einnig farið hratt lækkandi á árinu. Í frv. þessu er m.a. gert ráð fyrir að stofnunum verði bættur tekjumissir vegna aðgerða í kjölfar yfirlýsinga stjórnvalda frá því í janúar til að hamla á móti verðlagshækkunum.

Einkaneysla heldur áfram að dragast saman þrátt fyrir að kaupmáttur aukist en það sýnir að sparnaður fer vaxandi. Nú eru horfur á að afgangur verði á viðskiptajöfnuði þegar á þessu ári. Endurskoðaðar áætlanir gera einnig ráð fyrir góðum afgangi á ríkissjóði eins og fjáraukalagafrv. ber með sér. Staðan er því önnur nú en við umræður um fjáraukalög ársins 2001 en ríkisreikningur fyrir árið 2001 staðfestir að tekjuafgangur varð á því ári þrátt fyrir að ekki yrði af eignasölu þeirri sem ég áður drap á. Það sýnir styrka stöðu ríkisfjármála og að ábyrg ríkisfjármálastefna er nauðsynlegur hluti af aðlögun efnahagslífsins að nýju jafnvægi.

Tekjur ríkissjóðs hafa verið endurskoðaðar í ljósi innheimtunnar það sem af er ári í ljósi þess að horfur hafa breyst í efnahagsmálum. Hækkun tekna er eins og áður sagði um 5,7 milljarðar kr. og má fyrst og fremst rekja hana til þess að tekjuskattar einstaklinga og fyrirtækja skila meiru en áætlað var í fjárlögum. Tekjuskattar einstaklinga skila tæplega 4 milljarða hærri tekjum en áætlað var og tekjuskattar fyrirtækja erum 1 milljarði hærri en í fjárlögum. Tryggingagjald hækkar um 600 millj. kr. en virðisaukaskattur er í samræmi við áætlun. Þessar breytingar á tekjum endurspegla það sem sagt var um þróun efnahagsmála um að afkoma heimila og fyrirtækja er að batna án þess að neysla og fjárfestingar aukist, sem kemur aftur fram í auknum sparnaði og niðurgreiðslu skulda.

Fjmrn. hefur í samvinnu við önnur ráðuneyti farið yfir fjármál einstakra stofnana og verkefna. Leitað hefur verið skýringa á útgjöldum umfram fjárlög og lögð til ákveðin viðbrögð. Miðað er við að í frv. verði útgjöld vegna ófyrirséðra verkefna bætt sem og áhrif kjarasamninga og nýrrar löggjafar. Þá er tekið tillit til breytinga af hagrænum toga, svo sem gengis, atvinnuleysis og fleiri liða sem áhrif hafa á lögbundin útgjöld. Loks er tekið tillit til ákvarðana ríkisstjórnarinnar um ný útgjaldatilefni.

Eins og undanfarin ár er miðað við að rekstrarhalli stofnana sé almennt ekki bættur nema fram hafi farið endurskipulagning á fjármálum eða að viðkomandi stofnun hafi sýnt fram á að gripið hafi verið til viðeigandi aðhaldsaðgerða. Þá er miðað við að rekstur verði innan fjárheimilda og að tekið sé á fjármálum í frv. til fjárlaga næsta árs.

Alls er áætlað að útgjöld aukist um 7,3 milljarða, þar af eru 2,9 milljarðar vegna heilbrigðis- og tryggingamála og tæplega einn milljarður vegna félagsmála. Stafa útgjöld í heilbrigðismálum aðallega af hallarekstri sjúkrastofnana og af auknum útgjöldum sjúkratrygginga. Þá hækka útgjöld til félagsmála vegna aukins atvinnuleysis og útgjalda ábyrgðasjóðs launa en þar er væntanlega um tímabundinn útgjaldaauka að ræða.

Framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hækka um 500 millj. kr. vegna endurmats á lögboðnum útgjöldum og lagt er til að halli á Tækniskóla Íslands verði gerður upp með rúmlega 200 millj. kr. framlagi en ný lög um skólann hafa tekið gildi eins og kunnugt er.

Framlög til Lánasjóðs ísl. námsmanna aukast um 160 millj. kr. vegna fjölgunar lánþega og breytinga á tekjum lánþega. Þá má nefna að framlög til styrktar innlendri grænmetisframleiðslu eru áætluð 280 millj. kr. í samræmi við lög þar um og samning við framleiðendur.

Viðhalds- og stofnkostnaður eykst um 630 millj. kr., þar af eru 150 til að ljúka við byggingu Kennaraháskóla Íslands, 100 millj. til fjárhagskerfa ríkissjóðs og 125 millj. kr. til að ljúka framkvæmdum við Reykjavíkurflugvöll en aðrar breytingar eru minni. Loks eykst fjármagnskostnaður um 250 millj. kr., launabætur eru samtals 900 millj. en á móti kemur að gengisbundnir liðir lækka um rúmlega 450 millj.

[15:30]

Lánsfjárafgangur er áætlaður 20,7 milljarðar en er 38,3 í fjárlögum og lækkar því um 17,6 milljarða kr. eins og áður er getið. Skýringin felst í því að ekki varð af ríflega 20 milljarða kr. sölu á hlut ríkissjóðs í Landssíma Íslands í árslok 2001 og því minnka viðskiptareikningar um 21,5 milljarða af þeim sökum en áætlað hafði verið að greiðslan kæmi inn í upphafi árs 2002. Á móti kemur að innheimtar afborganir af veittum lánum ríkissjóðs verða heldur meiri en áætlað var og munar þar mestu um afborganir af veittum lánum til Seðlabanka Íslands og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Framangreindar breytingar hafa orðið til þess að áform um fjármögnun á ríkissjóði hafa verið tekin til endurskoðunar. Nú er áformað að ráðstafa lánsfjárafgangi þannig að 9 milljarðar verði greiddir inn á framtíðarskuldbindingar hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, tæplega 4 milljarðar fari til að greiða niður aðrar skuldir umfram nýjar lántökur og að staða ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands batni um 8 milljarða kr. Alls er áætlað að tekjuafgangur á ríkissjóði minnki um 1,3 milljarða eins og áður sagði og verði 17,2 milljarðar þegar tekið hefur verið tillit til millifærslu fjárveitinga á milli ára. Tekjuafgangur fyrir hagnað á sölu eigna er áætlaður 2,8 milljarðar og tekjuafgangur án reglulegra tekna og gjalda, þ.e. af venjubundinni starfsemi ríkissjóðs, er 11,6 milljarðar samkvæmt þessari áætlun. Staða ríkissjóðs er því sterk eins og fram kemur í því að lánsfjárafgangi er áfram varið til að lækka skuldbindingar ríkisins. Þannig er létt byrðum af komandi kynslóðum og ríkissjóði gert betur kleift að mæta framtíðarútgjöldum m.a. vegna breyttrar aldurssamsetningar.

Herra forseti. Ég hef nú gert almenna grein fyrir efni frv. og rakið helstu breytingar sem í því felast frá fjárlögum 2002. Ég sé ekki ástæðu til að fara yfir einstaka liði í frv. en legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjárln. þingsins.