Fjáraukalög 2002

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 15:53:00 (498)

2002-10-14 15:53:00# 128. lþ. 9.4 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[15:53]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Starfshættir eru orðnir undarlegir á Alþingi Íslendinga. Forseti sem hér situr veður yfir allt og alla, og breytir hefðum sem verið hafa í langan tíma. Þegar þingmenn kalla eftir því að gera athugasemd við stjórn fundarins er vaðið yfir þá líka og ekki hlustað á, eða ekki tekið eftir því sem sagt er.

Sú hefð hefur verið ríkjandi svo lengi sem ég man að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn talar fyrstur við allar umræður um fjárlög. Núna breytir virðulegur forseti því rétt eins og þegar hann gerir athugasemd við störf einstakra þingmanna en leyfir sér sjálfur slíkt hið sama sem hann gerir athugasemd við hjá öðrum.

Virðulegi forseti. Við byggjum fjárlagagerð okkar á svonefndum rammafjárlögum. Það er ástæða til að hugleiða lítillega við hvað er átt með rammafjárlögum. Menn setja sér markaðan ramma fyrir viðfangsefni og meta þau til fjár. Fyrst og fremst er markmiðið að útgjöld fari ekki fram úr áætluðum tekjum.

Í öðru lagi eru rammar hvers ráðuneytis þannig upp settir að ef eitthvað fer úrskeiðis varðandi einn þátt er ætlast til þess að viðkomandi ráðuneyti hagræði innan rammans nema um eitthvað stórkostlega ófyrirséð sé að ræða, svo sem náttúruhamfarir eða því um líkt.

Það er ljóst þegar farið er yfir fjárlög og fjáraukalög að enn er nokkuð langt í land með að menn virði --- þá á ég við hæstv. ráðherra sem yfirmenn sinna málaflokka --- þau lög sem þeir hafa sjálfir samþykkt, fjárlög og fjárreiðulög. Mín fyrsta athugasemd til hæstv. fjmrh. er því að hann útskýri fyrir þingi og þjóð hvernig hann skilur hugtakið rammafjárlög. Mér virðist ekki veita af því að hann brýni fyrir félögum sínum, öðrum hæstv. ráðherrum, að virða lögin.

Ég spyr einnig að marggefnu tilefni um rekstrargrunninn: Er hann rangur? Það er ástæða til að setja fram spurningar af þessu tagi því að það eru of mikil, að mínu mati, frávik frá fjárlögum til reikningsniðurstöðu, og þó að bent hafi verið á skekkjur þegar í upphafi umræðu um fjárlagagerð virðast menn ekki vilja sinna slíku. Það hefur verið kallað, af hv. formanni fjárln., að stinga höfðinu í sandinn.

Eru hæstv. fjmrh. og næstráðendur hans í strútsleik, vilja þeir ekki líta til staðreynda fyrr en þær hellast yfir þá? Þessu velti ég fyrir mér vegna þess að á flest af því sem úrskeiðis hefur farið varðandi fjárlagagerðina var bent við fjárlagaumræðuna fyrir fjárlög 2002.

Í fjáraukalögum innan fjárhagsárs á að fjalla um þær fjárráðstafanir sem ekki var hægt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Fjáraukalög eiga þannig fyrst og fremst að snúast um ófrávíkjanleg málefni en ekki um rekstrarvanda einstakra ríkisstofnana. Aðrar fjárhagsráðstafanir eiga að koma til umfjöllunar við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta fjárhagsár eða við afgreiðslu lokafjárlaga fyrir síðasta fjárhagsár. Því miður næst þetta markmið ekki og m.a. er í frv. til fjáraukalaga verið að fjalla um ákveðinn rekstrarvanda einstakra stofnana.

Herra forseti. Hvernig fer saman stjórnunarleg og fjárhagsleg ábyrgð? Mér finnst, virðulegur forseti, vanta á að menn hafi skilgreint fyrir sjálfum sér hvernig þetta eigi að fara saman. Það er eins og fjárreiðulögin, sem eru stuðningur við fjárlögin, hafi ekki átt aðgang að borðum hæstvirtra ráðherra því að þar er tekið á þessum hlutum og sagt nákvæmlega fyrir um hverjar og hvernig leikreglur eru.

Í fjáraukalagafrv. sem hér liggur fyrir ber það hæst að fyrirséðri fjárvöntun í heilbrigðiskerfinu er nú mætt að hluta en stórir þættir standa út af borðinu svo sem vegna Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Þar standa út af líklega milli 700 og 800 millj., og hjá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri standa út af líklega um 170 millj. Þar að auki er óleystur vandi sem verið er að vinna að upp á milli 700 og 800 millj. vegna rekstrar öldrunarheimila.

Ég veit ekki hvernig þetta er en ýmislegt virðist hafa dottið út af borðinu. Það er einnig verið að leiðrétta í þessu fjáraukalagafrv. fjárúthlutanir sem virðast hafa dottið á milli skips og bryggju því að ráðuneytin hafa einfaldlega ekki sinnt því fyrr en með fjáraukalögum að afgreiða samþykktir fjárln. á fjárlögum síðasta árs. Ég tel mjög athugavert að svona lagað tíðkist. Ég veit ekki hvort það táknar eitthvað sérstakt eða hvort um mistök er að ræða.

Það er auðvitað margt sem við getum skoðað þegar við veltum fyrir okkur fjárveitingatillögum til fjáraukalaga fyrir 2002. Það má velta fyrir sér sérstökum kostnaði vegna heimsókna þjóðhöfðingja sem sennilega hefði verið hægt að gera, og þyrfti að gera, ráð fyrir. Greint er frá því að hér hafi kínverskur forseti komið og þar verður til kostnaður upp á tugi milljóna. Það liggur við að maður þurfi að ætlast til þess að til séu fjármunir til að mæta svona óvæntum uppákomum, bæði vegna kostnaðar við löggæslu og annarra útgjalda ráðuneyta.

[16:00]

Einnig má velta fyrir sér 4. gr. sem heitir Ýmis ákvæði -- Heimildir. Þar er verið að biðja um breytingar á þeim liðum sem þar koma fram, frá 2.26 upp í 7.14. Ég fullyrði og spyr kannski um leið hæstv. fjmrh.: Er það svo að ekkert af því sem hér er hafi verið fyrirsjáanlegt fyrir árið 2002 þegar við samþykktum fjárlög? Ég fullyrði að hluti af þessu hafi verið til í greinargerð og í áætlun þannig að það hefði mátt og átt að vera í fjárlögum, en þetta kemur inn í fjáraukalög.

Ég tel að slíkt sé athugavert í verkframkvæmdinni, virðulegur forseti, og þar hygg ég að við hæstv. fjmrh. getum verið að nokkru sammála, að þetta er það sem menn hafa verið að bæta. Og það er margt sem hefur batnað, m.a. það að fjáraukalögin eru lögð fram á fyrstu dögum þingsins og ég vil segja að það er til fyrirmyndar fyrir hæstv. fjmrh.

Herra forseti. Það er ekki af árásarhvöt sem ég dreg fram þau atriði sem ég hef nefnt, heldur að hvetja til bættra vinnubragða þar sem það er unnt. En að öðru leyti vísa ég til þess að fulltrúar Samfylkingarinnar í fjárln. munu skila áliti við 2. umr. um fjáraukalög svo sem venja er til. Og við munum gera athugasemdir og formlegar tillögur við þá umræðu.

Ég vil benda á, herra forseti, að við umræðu um fjárlög eru einstakar stofnanir þegar í upphafi að leggja af stað með rekstrarhalla sem nemur hundruðum milljóna. Það þarf að fá menn til að horfast í augu við þá staðreynd og henni þarf að breyta.

En það sem út af stendur og er hryggilegast er að þess sjást engin merki að hæstv. ríkisstjórn geri eitthvað til að bæta stöðu þess fólks sem á við fátækt og vanda að stríða vegna verulega breyttra aðstæðna í íslensku samfélagi. Hæstv. ríkisstjórnin hælir sér af 17,2 milljarða afgangi í fjárlögum á meðan þúsundir, ekki hundruð, Íslendinga berjast við að ná endum saman, fjöldi þeirra á yfirvofandi nauðungaruppboð yfir höfði sér. Og á sama tíma og ríkisstjórn ber sér á brjóst og hælir sér af 17,2 milljarða afgangi, sem er glæsileg tala, þá er sagt í ræðum hjá Tryggingastofnun ríkisins, svo ég vitni nákvæmlega til einnar, með leyfi forseta. Þar segir Ingibjörg Georgsdóttir barnalæknir:

,,Íslenska velferðarkerfið er flókið, stagbætt eins og gömul flík, segja gárungarnir. Helstu bóta- og greiðsluflokkar sem snúa að börnum og barnafjölskyldum eru greiðslur í fæðingarorlofi, barnabætur, mæðra- og feðralaun öryrkja og einstæðra foreldra, barnalífeyrir vegna barna og öryrkja og umönnunargreiðslur vegna fatlaðra, langveikra barna.``

Farið er yfir þetta í mörgum liðum og sýnt fram á að velferðarkerfið er stagbætt og gallað. Þetta er til skammar fyrir okkur. Við ættum að láta okkur það að kenningu verða hvernig hlutirnir eru og nýta eitthvað af þeim fjármunum sem við höfum í afgang til að bæta stöðu þeirra sem illa eru staddir, það eru allt of margir þannig staddir á sama tíma og við stærum okkur af mjög góðri stöðu ríkissjóðs.