Fjáraukalög 2002

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 16:25:12 (502)

2002-10-14 16:25:12# 128. lþ. 9.4 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[16:25]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við ræðum hér fjáraukalagafrv. þessa árs.

Herra forseti. Ég bar fram ákveðnar spurningar til hæstv. fjmrh. í umræðunni um fjárlög fyrir stuttu síðan sem hann hafði þá ekki svör við á reiðum höndum. Hann bauðst til að útvega þau síðar og koma þeim á framfæri sem allra fyrst í fjárln. Ég hef ekki séð þau svör þar. Ég vildi því af því tilefni, herra forseti, fá að ítreka þessa spurningu. Nú hagar hins vegar svo til, hæstv. forseti, að fjmrh. er ekki í salnum.

(Forseti (GÁS): Forseti mun grípa til viðeigandi ráðstafana og ná honum til fundarins.)

Herra forseti. Það sem ég ætlaði að ítreka við hæstv. fjmrh. voru einfaldlega spurningar sem ég lagði fyrir hann í lok umræðunnar um fjárlagafrv. Þá spurði ég um skuldastöðu ríkisins og hvað af lækkun erlendra skulda í fjárlagafrv. væri til komið af gengisbreytingum, hækkun íslensku krónunnar eða lækkun erlendrar myntar, m.a. vegna betri vaxtakjara fyrir okkur í Bandaríkjunum á lánum í dollurum. Ég vildi í lokin á þessari umræðu um fjáraukalögin spyrja hvort hæstv. fjmrh. hefði þessar upplýsingar við höndina sem hann hafði ekki þá. Ég óska eftir að fá það upplýst.