Fjáraukalög 2002

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 16:41:30 (504)

2002-10-14 16:41:30# 128. lþ. 9.4 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[16:41]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Eðlilegt er að hann hafi ekki svör á reiðum höndum við öllum þeim fyrirspurnum sem í raun áttu við aðra hæstv. ráðherra, en eins og hæstv. fjmrh. benti á þá munum við leita eftir því í fjárln. að fá þessar upplýsingar. En ég vil þakka hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir það sem að hæstv. ráðherra sneri.

Þó vil ég ítreka þrjú atriði örlítið. Það er í fyrsta lagi varðandi bílakaup hæstv. ráðherra. Það var nú kannski ekki aðalatriðið að velta fyrir sér þessum 500 þús. kr. mun sem var á bílunum heldur spurningunni um það hvort hæstv. ráðherrar hefðu ekki getað séð þetta fyrir þannig að við hefðum getað verið með þetta inni í fjárlögum þessa árs. Ef það hefði ekki verið hægt, hvað réð því þá að svo mjög lá á að það þurfti að framkvæma þetta á þessu ári og taka það inn í fjáraukalögin? Af hverju mátti þetta ekki bíða fjárlaga næsta árs?

Herra forseti. Þá vakti orðalag hæstv. ráðherra um það sem óskað er eftir varðandi Brattahlíð og Þjóðhildarkirkju athygli mína, þ.e. ,,það komu fram reikningar``. Eiginlega er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. ráðherra örlítið betur út í þetta orðalag. Voru þessir reikningar þá týndir þar til þeir allt í einu komu fram eða var einhver deila um þessa reikninga sem ekki var var gerð upp þá fyrr en núna og er þetta þá niðurstaða eftir samningaviðræður við vertakana eða einhverja aðra?

Þriðja atriðið er síðan að ég vildi bara taka undir með hæstv. ráðherra. Ég held að það sé, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, ekki hyggilegt að ráðuneyti standi að sýningu eins og Islandicu 2001. Ég held að það sé hárrétt hjá hæstv. ráðherra að það sé ekki venjulegt. Við skulum vona að það verði ekki regla að ráðuneyti standi fyrir sýningum af þessu tagi og þetta verði til að kenna ráðuneytunum að aðrir séu hæfari til þess að standa að slíku sýningarhaldi en þau.