Fjáraukalög 2002

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 16:43:39 (505)

2002-10-14 16:43:39# 128. lþ. 9.4 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[16:43]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Tvennt vil ég nefna sérstaklega út af andsvari hv. þm., í fyrsta lagi Brattahlíð og Brattahlíðarverkefnið. Vera má að ég hafi notað orðalag sem hv. þm. hnýtur um, þ.e. að það hafi komið fram reikningar. Ég þekki því miður ekki nákvæmlega aðdraganda þess, en það er staðreynd og hefur verið sannreynt af hálfu forsrn. og fjmrn., að dæmið var ekki að fullu uppgert á árinu 2000. Þeir reikningar sem hér er um að ræða og það uppgjör við verktakann byggist á réttmætri kröfu af hans hálfu að okkar mati. Þess vegna viljum við klára þetta mál núna.

Hins vegar að því er varðar bílakaupin þá má sjálfsagt endalaust um það deila hvenær fyrirsjáanlegt er að það þurfi að endurnýja bíla. Auðvitað þarf að gera það með reglubundnu millibili. Kannski má finna einhverja aðra leið, vera t.d. með einhvern safnlið á hverju einasta ári og endurnýja svo og svo marga bíla á hverju ári. Ég skal ekkert útiloka það. En í þessum tilvikum var talið réttlætanlegt og nauðsynlegt að gera þetta svona.

Að öðru leyti vísa ég þingmanninum á þær skýringar sem hann kann að kalla fram í fjárln.