Tryggingagjald

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 17:28:27 (513)

2002-10-14 17:28:27# 128. lþ. 9.5 fundur 181. mál: #A tryggingagjald# (lækkun gjalds o.fl.) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[17:28]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir þær undirtektir sem þetta þingmál hefur fengið og mun nú reyna að svara nokkrum spurningum sem til mín hefur verið beint.

Í fyrsta lagi vil ég víkja að spurningu hv. þm. Kristjáns Möllers sem mér telst til að hafi verið í fjórum hlutum.

Í fyrsta lagi, að því er varðar tryggingagjald sveitarfélaganna, hefur ekki verið gert ráð fyrir neinum sérstökum ráðstöfunum vegna þess. Ef talan sem hann nefndi, um 255 millj. kr. vegna 25 stærstu sveitarfélaganna og fyrirtækja þeirra, er rétt er nýja talan, eftir þá breytingu sem hér er lögð til, væntanlega u.þ.b. 170 millj. Það hefur ekki verið gert ráð fyrir neinum sérstökum ráðstöfunum af okkar hálfu í sambandi við sveitarfélögin og þetta mál hér.

Í öðru lagi veltir þingmaðurinn fyrir sér, eins og hann gerði þegar þetta mál var mikið rætt í fyrra, hvernig hækkun tryggingagjaldsins kæmi út fyrir landsbyggðina og fyrirtæki þar. Ég dreg ekki í efa að eflaust megi finna einhver dæmi þess að hækkun tryggingagjaldsins geti valdið meiri íþyngingu en nemi lækkun tekjuskattsins, þ.e. hafi fyrirtæki verið í þeirri aðstöðu að skila ekki hagnaði. Ég held þó að slík dæmi megi finna jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem úti á landi. Ég tel að í Reykjavík séu því miður fyrirtæki sem ekki skila hagnaði og borga ekki tekjuskatt en eru með fólk í vinnu. Slík fyrirtæki, eðli málsins samkvæmt, verða fyrir ákveðinni íþyngingu hér sem við erum þó að draga úr með tillögunni sem frv. gerir ráð fyrir.

[17:30]

Ég held hins vegar að það sé mjög varhugavert að flokka þetta mál eða mæla það á sérstakan mælikvarða landsbyggðar annars vegar og þéttbýlisins hins vegar og ég vara við því að menn dragi slíkar ályktanir, enda hlýtur það auðvitað að vera markmið okkar allra að reyna að búa þannig um hnútana að atvinnurekstur alls staðar í landinu geti verið arðbær og skilað hagnaði og þar af leiðandi greitt sinn 18% tekjuskatt.

Ég ætla ekki að fjalla um eða út af fyrir sig vefengja þær tölur sem hv. þm. nefndi um einstaka landshluta, ég hef ekki neina aðstöðu til að fara ofan í það hér en bendi þó á að hækkun tryggingagjaldsins minnkar um einn þriðja með þeirri breytingu sem nú er verið að leggja til.

Þingmaðurinn spurði einnig hvaða áhrif þessi breyting hefði á vísitölu neysluverðs. Því get ég því miður ekki svarað en ég geri ekki ráð fyrir að þau verði mikil.

Loks spurði þingmaðurinn: Hvers vegna er 2. gr. í frv. varðandi almannatryggingar á Íslandi og greiðslu tryggingagjalds af störfum Íslendinga sem vinna erlendis tekin með núna, af hverju var hún ekki með í fyrra ef þessu þurfti að breyta? Ástæðan er sú að í fyrra vorum við með frv. þar sem megináherslan var á aðra þætti en tryggingagjaldið. Núna erum við hins vegar með sérstakt frv. um breytingu á tryggingagjaldinu einu og þá var tækifærið notað til að fara í gegnum öll tryggingagjaldslögin með það fyrir augum að hreinsa þar til, taka þar út ákvæði sem eru orðin úrelt eins og lagt er til í 1. gr. frv., b-lið, og einnig að bæta inn því sem eðlilegt var talið að gera og nota þá tækifærið til þess í frv. og hygg ég að um þær breytingar geti verið ágæt samstaða. Ég tel mig þá hafa svarað spurningum hv. þm. Kristjáns L. Möllers.

Hv. þm. Jón Bjarnason velti fyrir sér greiðslu tryggingagjalds af erlendum ríkisborgurum sem væru í vinnu á Íslandi annars vegar og svo hins vegar Íslendingum í vinnu erlendis. Í frv. kemur fram að verið er að greiða fyrir því að Íslendingar sem starfa erlendis geti greitt tryggingagjaldið hingað til lands, eða að hægt sé að greiða tryggingagjald af launum þeirra og þar með tryggja þeim ákveðinn rétt gagnvart almannatryggingakerfinu. Almenna reglan er hins vegar sú að tryggingagjald greiðist til þess lands þar sem vinnan er innt af hendi og það á jafnt við um Íslendinga sem starfa erlendis og útlendinga sem starfa hér.

Ég vil að endingu nefna út af ummælum hv. þm. Jóhanns Ársælssonar í sambandi við það sem áður var hér í gildi að því er varðar tryggingagjaldið og hina mismunandi gjaldflokka sem þá voru, að þá er það áreiðanlega rétt hjá honum að ýmsir atvinnurekendur og atvinnugreinar sem áður greiddu lægri tryggingagjöld en almennt tíðkaðist hafa náttúrlega þurft að bera þá hækkun. Þeir sem voru aftur á móti með hæstu tryggingagjöldin nutu þess í samræmingunni að gjald þeirra lækkaði. Meginhugmyndin var auðvitað sú að samræma gjaldið og hætta að mismuna atvinnugreinum með þeim hætti sem áður var gert að því er varðar tryggingagjald. Ég held að það hafi verið rétt stefna sem forveri minn hér beitti sér fyrir og náði fram að ganga. Ég held að það þyki núorðið sjálfsagt og eflaust í samræmi við allar EES-reglur og þess háttar að tryggingagjald sé eitt á allar atvinnugreinar en ekki mismunandi eftir því hvernig landsfeðrunum líkar við viðkomandi atvinnurekstur.